131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[21:27]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Ég mun tala hér fyrir breytingartillögum sem eru breytingartillögur við samgönguáætlun áranna 2005–2008. Þegar þetta var kynnt hér í fyrri umræðu tjáði ég mig um ákveðna hluti sem ég hefði áhuga á að breyta og teldi skynsemi í og plagg mitt liggur hér frammi, breytingar á þessari áætlun. Þetta er þríþætt, í fyrsta lagi flugmálaáætlun, í öðru lagi áætlun fyrir hafnir og í þriðja lagi fyrir vegi.

Það sem breytingarnar hjá mér ganga út á varðandi flugmálaáætlunina er að hætta við lengingu Þingeyrarflugvallar, sem er flugvöllur búinn öllum búnaði og alveg klár í allt, og að 200 milljónir fari í staðinn til lengingar á Egilsstaðaflugvelli. Áætlunarflugi á Þingeyrarflugvöll var hætt fyrir allmörgum árum og nú er hann varaflugvöllur fyrir Ísafjörð. Rökin fyrir því eru þau að flugvélarnar geti ekki lent fulllestaðar á Þingeyri, þær geta ekki verið með nema 30–34 farþega í staðinn fyrir 50. Svo er spurning hvort vélarnar eru alltaf fulllestaðar þegar þær fara á Þingeyri.

Ég aflaði mér upplýsinga um hvað margar lendingar farþegavéla væru á Þingeyri. Á síðasta ári voru þær 19. Farþegar sem fóru um völlinn voru 662, þ.e. til og frá. Það voru einhvers staðar nálægt kannski 20 sæti í hverri vél. Árið 2003 voru 26 lendingar. Það hafa verið um það bil 21 eða 22 sæti. Árið 2002 var afbrigðilegt þar sem framkvæmdir voru við Ísafjarðarflugvöll. Árið 2001 voru þetta 29 lendingar og árið 2000 voru þetta 20 lendingar.

Maður spyr sjálfan sig: Hvers vegna í ósköpunum eru menn að þessu? Ég segi: Menn þyrftu þá að geta sannað að hver einasta vél sem fer þarna vestur þurfi að hafa 50 farþega en þurfi að skilja eftir út af þessu. En samkvæmt þessum tölum er ekki um það að ræða. Mér finnst því ekki vel varið fjármunum að gera þetta svona. Þar að auki kostar 25 milljónir að lengja veginn í kringum flugvöllinn þegar búið er að lengja brautina, 25 milljónir svona í viðbótarálag. Þegar hæstv. samgönguráðherra segir að það sé skynsemi í þessu þá segi ég að ég tel meiri skynsemi í að lengja Egilsstaðaflugvöll og/eða Akureyri. Síldarvinnslan á Neskaupstað verður með gífurlega mikinn útflutning fljótlega í ferskum fiski, þ.e. laxi. Hún verður einn stærsti útflytjandi á svæðinu. Eftir að hafa innt þá upplýsinga kemur í ljós að ef þeir mundu sameinast Samherja og Útgerðarfélagi Akureyringa þá mundu fara þrjár vélar af stærðinni Boeing 757. Núna geta einungis lent fulllestaðar 737 vélar eða tekið á loft af Egilsstaðaflugvelli. Þess vegna tel ég mikla skynsemi að fara með þessa fjármuni þangað til að lengja þessa flugbraut til að gera þennan möguleika eða valkost raunhæfan.

Menn verða að geta fært sönnur á og sýnt fram að hér sé um líf og dauða að tefla í þessum málum þarna fyrir vestan, þ.e. með því að lengja flugbrautina. En fyrir hvað? Það er nú fyrsta versið.

Svo má nefna stofnkostnaðinn og þar náttúrlega greinir mig á við meiri hluta samgöngunefndar og hæstv. samgönguráðherra, virðulegi forseti, um jarðgangaáætlun og jarðgangaáætlun meiri hlutans. Áætlaðir eru 4,5 milljarðar í göng um Héðinsfjörð en það þarf a.m.k. 7 milljarða. Maður spyr sjálfan sig: Er þetta svona rétt bara byrjunin? Á að sá svona kornum eða hvernig á eiginlega að gera þetta? Verður þetta byggt 2000 og eitthvað eða hvað?

Í minni áætlun var smávilla. (Gripið fram í.) Þar vantar fjármuni til að greiða upp Fáskrúðsfjarðargöng og kemur náttúrlega bara til af dreifingu (Gripið fram í.) á jarðgangaáætlun. Það breytir þó ekki neinu því að heildartalan breytist ekki. En með því ... Hv. þm. Kristján Möller hlær hér mikið. (Gripið fram í.) Já, virðulegur forseti. En það mundi þýða að það eru 2,5 milljarðar sem fara í göng úr Fljótum á Siglufjörð sem er áætlað að kosti 3,5 milljarða. Síðan er hugmynd mín að setja 700 milljónir í göng undir Vaðlaheiði. Hluti af því yrði rukkað sem veggjald og yrði tekið í einkaframkvæmd svipað og Hvalfjarðargöng. Ég hef nú tjáð mig um þessi Héðinsfjarðargöng og mér finnst þau afar sérkennileg framkvæmd. Menn hafa talað hér um að þetta hafi verið loforð, það hafi verið gefið hér í hátíðaræðum og þegar kjördæmabreytingin var. Hæstv. samgönguráðherra hefur farið mikinn í fjölmiðlum og sagt að ég væri búinn að samþykkja þetta margoft. Ég hef tjáð mig um það áður hér að ég hef nú ekki verið ánægður, virðulegi forseti, með skiptingu vegafjárins. En nú keyrir um þverbak. Virðulegi forseti. Ef einu sinni er búið að samþykkja vegáætlun þá á það að gilda um aldur ævi samkvæmt því sem hæstv. samgönguráðherra segir. (Gripið fram í: Hvers vegna ...?)

Ef af þessu verður þá náttúrlega óska ég Siglfirðingum til hamingju með að geta farið í bíó til Akureyrar og leikhús og annað slíkt. En aðallínan náttúrlega verður Reykjavík–Siglufjörður með alla flutninga. Vegur um Almenninga er afar ótryggur þrátt fyrir fullyrðingar hæstv. samgönguráðherra hér um daginn sem gerði lítið úr því. Væntanlega geta Siglfirðingar staðfest að þessi vegur er afar öruggur samkvæmt því sem hæstv. ráðherra sagði. En ég tek bara ekki nokkurt mark á því. Það er nú bara þannig. (Gripið fram í: Já.) Ég kann svolítið fyrir mér í þeim fræðum, virðulegi forseti, og ég veit ekki hvar hann hefur fengið þetta. Það má rekja ýmis dæmi þessu til sönnunar. Það gæti farið illa í Almenningum og vegurinn á haf út. Við það eru menn hræddir. Tillaga mín er um göng úr Fljótunum yfir á Siglufjörð til að bæta öryggi Siglfirðinga. Þeir komast þessa leið. Ef einungis austurleiðin er tengd yfir til Akureyrar þá eiga menn að keyra sjálfsagt Siglufjörður–Ólafsfjörður og suður. Ef menn hafa mikið fjármagn og ætla að standa við þessi loforð svokölluð þá geta menn tengt alltaf Fljótin við Ólafsfjörð.

Svo vakti eitt athygli mína um daginn. Það var alveg ótrúlegt. Það var verið að bjóða út verkefni yfir Lágheiði upp á einhverjar 100 eða 200 milljónir. Ég man ekki, virðulegur forseti, hvað þetta var mikið og á sama tíma á að fara í göng þarna á milli. Það er margt sem maður botnar ekki í hvað varðar þessa ráðstöfun fjármuna til samgangna á landsbyggðinni.

Þetta var um gangamálin. Menn hafa haft hátt í þessu máli, sumir hverjir og það er svo merkilegt að ef einhverjir aðrir hafa aðra skoðun eða aðrar tillögur um slíka hluti þá þarf það að gerast með einhverjum hávaða og látum og hamagangi. Það bara á ekki að vera möguleiki að hafa aðra skoðun. Mörgum, alls staðar á landinu, blöskrar þetta. Ég er að reyna að leiða þetta með þessari tillögu til betri vegar þannig að menn verði sáttir við þetta. Ég vil hlut Siglufjarðar sem mestan og bestan. En ég skil náttúrlega þingmenn þeirra, virðulegi forseti, þegar þeir berjast fyrir sínu byggðarlagi og ekkert er nema gott um það að segja.

Varðandi síðan aðrar framkvæmdir þá er þetta þannig ef maður tekur þetta saman að höfuðborgarsvæðið fær um 20% af stofnfjárfestingum Vegagerðarinnar á þessum tíma. Restin fer út á land. Við erum með svipaða upphæð hér og Norðvesturkjördæmi þrátt fyrir langtum fleiri kílómetra í Norðvesturkjördæmi, eins og hæstv. ráðherra sagði í Kastljósi í gærkvöldi máli sínu til stuðnings. Honum láðist að taka fram hvaðan tekjurnar kæmu og á hvaða vegum bílarnir hérna á þessu svæði keyra. Þeir keyra aðallega á gatnakerfi bæjanna þrátt fyrir að ríkið sé að rukka þungaskatt og bensíngjald af þessum bílum sem keyra akkúrat á götum bæjarfélaganna. Gaman væri að vita hvort hæstv. ráðherra hafi það á takteinum hvað tekjur af bílaumferð hér á þessu svæði, af þessum 150 þúsund bílum, séu miklar í upphæðum. En það hefur ekki mátt tala um það eða heyra á það minnst. Hér á þetta svæði fara 6,6 milljarðar, 6,5 á Norðvesturland og 10 á Norðausturland samkvæmt tillögunum með göngunum og 3,4 á Suðurland sem mér finnst afskipt miðað við hin kjördæmin, miðað við að þeir eru með tvo mjög erfiða vegi og þunga, þ.e. bæði Reykjanesbraut og Suðurlandsveg auk annarra vega hjá þeim.

Tillaga mín gerir ráð fyrir því að draga úr fjármunum til ganganna með því að fara í göng úr Fljótum yfir á Siglufjörð og síðan verði aukið fjármagn um liðlega 2 milljarða til höfuðborgarsvæðisins. Förum aðeins yfir það í hverju það liggur. Það er næsti kafli í þessu, verkefni á höfuðborgarsvæði.

Í fyrsta lagi er um að ræða hringveg. Það eru gatnamót við Nesbraut, þ.e. Vesturlandsvegur og Suðurlandsvegur. Um þessi gatnamót fer gífurleg umferð og mikil bið er þar. Reiknað með samkvæmt tillögu meiri hluta samgöngunefndar að í þau fari í 103 milljónir árið 2008. En samkvæmt minni tillögu fara þangað 300 milljónir 2007 og 300 milljónir 2008. Talið er að það fari langt með að duga til að byggja þessi gatnamót. Þetta eru svokölluð T-gatnamót þannig að það er lítil tenging hinum megin við.

Svo er það breikkun, Víkurvegur–Skarhólabraut. Það verkefni er í gangi og það er óbreytt. Síðan er viðbót hjá mér á hringveginum, þ.e. tvöföldum Vesturlandsvegar frá Skarhólabraut, þ.e. þar sem núverandi framkvæmdir enda og að Þingvallavegi. Áætlað er að þessi framkvæmd kosti 470 milljónir án þess að taka mislæg gatnamót á leiðinni, en það var búið að tvöfalda í gegnum Mosfellsbæinn og láta þennan kafla halda sér sem þar er á milli hringtorganna, fara síðan niður í Álafosskvosina og upp að Þingvallavegi.

Í Hafnarfjarðarvegi eru gatnamót við Nýbýlaveg árið 2008 upp á 220 milljónir. Ég legg til að þetta verði 315 milljónir og dreifist á árin 2006, 2007 og 2008. Þetta er nú í mínum heimabæ og þarna er lögð til 100 millj. kr. aukning. Sennilega er það þess vegna sem hæstv. samgönguráðherra sagði í útvarpsviðtali í gær að ég væri að taka við bæjarstjóraembætti í Kópavogi og hugsaði eingöngu um Kópavog og væri bara að hugsa um sveitarstjórnarmálin. En ég segi, virðulegur forseti: Margur heldur mig sig. Það þarf ekki nema að fara nema í Norðvesturkjördæmi til að sjá hvernig það er.

Yfirvöld samgöngumála verða að átta sig á því að gífurlegur fjöldi af fólki hefur komið hérna inn á þetta svæði, flutt af landsbyggðinni á þetta svæði og það þarf samgöngumannvirki til að sinna þessu og þar sem byggð heldur áfram að þróast þarf samgöngumannvirki, m.a. þarna á Nýbýlaveginum. Það er að fara í gang núna. Menn verða að fara í framkvæmdir hvort sem þeim líka betur eða verr. Það er ekki hægt að bíða til 2008 með þessa framkvæmd. Það þarf bara ekkert að ræða það. Bæjarfélagið verður því að fara í þessa framkvæmd. Eins er með aðra vegi hér og samskipti við samgönguyfirvöld þar sem hefur ekkert verið hlustað á okkur eitt eða neitt. Við erum sjálfsagt ekki eina bæjarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem er þannig ástatt um.

Síðan er reiknað með að árið 2008 komi 200 milljónir í mislæg gatnamót á Hafnafjarðarveg–Engidal. Það á sem sagt að byrja á þeim gatnamótum þar sem er gífurleg umferð. Þetta er tenging út á Álftanesveg og síðan inn í Hafnarfjörð. Síðan á Reykjanesbraut er Laugarnesvegur–Dalbraut og það er óbreytt. Það eru sem sagt 180 milljónir 2006 og 90 milljónir 2007. Síðan eru það gatnamót við Bústaðaveg — ekki geri ég ágreining um það — árið 2008. Allt eru þetta nauðsynlegar framkvæmdir. Svo eru gatnamót við Stekkjarbakka. Það eru uppgreiðslur á lánum upp á 90 milljónir. Síðan eru það gatnamót við Arnarnesveg. Þar er sama upphæð. En ég reikna með að þetta verði fært fram um eitt ár. Þarna er nákvæmlega það sama að gerast og annars staðar, að byggðaþróun hefur orðið þannig í þessu bæjarfélagi að það verður að flýta þessari framkvæmd ef það á að vera eitthvert vit í þessu. Annars verður þarna öngþveiti.

Síðan er það Fífuhvammsvegur–Kaplakriki, breikkun. Það eru fjárveitingar 2005 og 2006. Það er óbreytt miðað við það sem meiri hlutinn gerir ráð fyrir. Svo eru gatnamót við Vífilsstaðaveg. Þau eru reiknuð 600 milljónir ríflega árið 2007 og ég geri ráð fyrir að þau komi 2008, eins og það var. Það er búið að færa þetta til. Síðan er það Lækjargata–Kaldárselsvegur. Það eru 150 milljónir núna í ár og ekki geri ég athugasemdir við það. Síðan eru það gatnamót við Urriðaholt í Garðabæ, nýtt hverfi sem á að fara að þróa þar. Menn komast þar ekki út af um leið og þeir tvöfalda veginn nema að hafa þar mislæg gatnamót. Þessar 300 milljónir eru ekki á áætlun meiri hlutans en reiknað er með að þær dugi til að byggja þau.

Síðan er það Krýsuvíkurvegur, sem er vegur frá Hafnarfirði í átt að Krýsuvík. Í dag er það þannig að öll umferð úr efnisnámum, bæði í Vatnsskarði og Undirhlíðum, þarf að fara í gegnum íbúðahverfi í Hafnarfirði. Það vantar því að tengja Krýsuvíkurveginn við Reykjanesbrautina. Reiknað er með 259 milljónum í þetta 2008 frá meiri hlutanum, en ég legg til að teknar verði 200 milljónir árið 2005 og 50 milljónir 2006 til að tengja þetta. Eins og þetta er í dag er þetta mjög erfitt.

Næst er það Nesbrautin, sem er eiginlega Miklabrautin, þ.e. þessi mikla framkvæmd sem er í gangi núna, Kringlumýrarbraut–Bjarkargata, sem eru 556 milljónir. Það eru engar breytingar frá mér í því. Síðan er það Kringlumýrarbraut–Miklabraut, mislægu gatnamótin þar. Það eru 100 milljónir árið 2006 og 100 milljónir 2007. Þetta eru að vísu gatnamót sem ég er afar ósáttur við að skuli ekki verða tekin sem mislæg og sem R-listinn hefur neitað að taka þótt samgönguráðherra hafi boðið fé til þess arna, en því hefur verið hafnað. Nú á að taka ljósastýrð gatnamót í sama plani sem er afleit lausn til framtíðar. Þetta er framkvæmd sem er sú arðbærasta á öllu landinu, að fara í hana.

Allt þetta sem við erum að taka — menn hafa verið að fullyrða að mikið af alvarlegum slysum og dauðaslysum sé úti á landi og það kann satt að vera, en því miður eru þau náttúrlega allt of tíð, hvort sem er úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu, þau eru þar líka og gífurlegur fjöldi af árekstrum eins og t.d. á umræddum gatnamótum og er þessi arðsemi m.a. reiknuð út frá því. Ég átta mig ekki á því hvers vegna R-listinn sló á hönd samgönguráðherra þegar hann bauð upp á þetta.

Síðan er það Hlíðarfótur, Hringbraut–Samgöngumiðstöð, þar eru ríflega 100 milljónir árið 2006 og 2007, ekki geri ég athugasemdir við það.

Svo er það Arnarnesvegur, þ.e. gatnamót við Fífuhvammsveg upp á 50 milljónir og 40 milljónir árið 2006 og 2007. Það eru engar athugasemdir þar.

Þá eru það gatnamót á Reykjanesbraut, vegurinn frá Reykjanesbraut upp að Elliðavatnsvegi, þ.e. frá Reykjanesbrautinni og upp að Fífuhvammsvegi. Í þetta eru reiknaðar tæplega 300 milljónir og þar leggur meiri hlutinn til að 200 milljónir verði 2008 og tæplega 100 milljónir 2006, en ég legg til að það verði 190 milljónir 2006 og 100 árið 2008.

Vífilsstaðavegur–Hafnarfjarðarvegur, það er óbreytt upp á 40 milljónir.

Álftanesvegur, sem er sýknt og heilagt búið að lofa, því menn eru nú alltaf að tala um loforð, þá er reiknað með að í hann verði lagðar tæpar 530 milljónir árið 2007 í tillögu meiri hlutans, en ég legg til að framkvæmdir hefjist 2006 og verði 200 milljónir þá og síðan 310 árið 2007.

Síðan geri ég ráð fyrir breikkun Hallsvegar. Það er verkefni sem menn hafa verið að deila um, en einhvern veginn verða menn að leysa þetta og set ég í þetta 100 milljónir árið 2008. Það er ekki inni á tillögum meiri hlutans.

Í Sundabraut, sem er Sæbraut–Geldinganes, eru 350 milljónir í tillögum meiri hlutans, en þær framkvæmdir eru milljarður. Við aukum sem sagt í þessari breytingartillögu um 650 milljónir á þessi fjögur ár. Yfirlýsingar hafa komið hér og komu fram við fyrirspurn frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni til hæstv. forsætisráðherra þar sem hann stóð hérna upp og lofaði einu stykki Sundabraut svona eins og menn væru að drekka úr vatnsglasi. En þessi framkvæmd kostar um 15–20 milljarða og hún náttúrlega gengur yfir en þarf að ganga alla leið upp á Kjalarnes. Þetta er nauðsynleg framkvæmd og allt það en þetta er náttúrlega framkvæmd sem er ekki klár heldur, umhverfismat er ekki klárt á fyrsta kaflann og þó svo menn séu búnir að koma sér saman um staðsetningu þurfa menn að halda áfram og var jafnvel hugsað að menn gætu verið með þetta í einkaframkvæmd að einhverju leyti. En auðvitað fagna ég því ef menn ætla að setja peninga úr sölu Símans í slíkar framkvæmdir. Ég hef ekki á móti því að menn setji peninga til samgöngumála úti á landi, t.d. til jarðgangagerðar, sem ég tel náttúrlega nauðsynlegt, en það verður náttúrlega að vera einhver skynsemi í þeim, eins og t.d. jarðgöng frá Neskaupstað og undir Oddsskarð er t.d. mjög nauðsynleg framkvæmd. Einhvern tímann voru einhverjir búnir að lofa göngum frá Dýrafirði yfir í Arnarfjörð og svo má lengi telja.

Ef við komum síðan að verkefnum á landsbyggðinni, þá hef ég miðað við allan hávaðann sem varð hérna með tillögur mínar lítið hróflað við því máli. Það sem ég hef þó gert í þessu er það að dregið hefur verið úr fjárveitingum á Vestfjarðavegi, þ.e. Svínadalur–Flókalundur, um 150 milljónir, þ.e. 50 milljónir árið 2007 og 100 milljónir 2008, eins og þetta var, það er nú búið að breyta þessu eitthvað í meðförum meiri hlutans og það eru komnar hérna nákvæmari tölur, en ég í áætlun minni hafði nú ekki Vegagerðina eða samgönguráðuneytið á bak við mig til að gera hana og var svona af veikum mætti að juða við þetta með hjálp og aðstoð ágæts fólks á nefndasviði.

Síðan er Þverárfjallsvegur, allt í einu birtast þar 100 milljónir. Ég reikna með að þær fari aftur til baka til höfuðborgarsvæðisins og í verkefni þar.

Þá er það Norðausturvegur frá Katastöðum að Krossavík. Reiknað er með að það minnki um 200 milljónir.

Ekki hefur annað verið gert, nema í liðnum um þjóðgarðavegi, þar hefur framlag verið lækkað til Útnesvegar um þjóðgarð árið 2007 úr 100 milljónum niður í 30 árið 2006. Þetta eru svona helstu breytingarnar í þessu.

Frá landsbyggðinni bætist við í Suðurstrandarveginn, sem er eitt af loforðunum. Árin 2006, 2007 og 2008 komi inn 100 milljónir ár hvert. Í dag er byrjað á þessum vegi frá Grindavík í leið austur og meiningin var að byrja frá Þorlákshöfn og leið vestur, það er kafli frá Krýsuvík og að sýslumörkum, þ.e. milli Árnessýslu og Gullbringusýslu sem er slitlag upp á um 10–12 kílómetra, hann getur verið þar án þess að endanlegt vegastæði komi og mikilvægast er að taka frá sýslumörkum og í Selvog, svo frá Selvogi og í Þorlákshöfn.

Þetta er nú það sem allur hávaðinn er út af, að breyta þessu aðeins, að rétta hag höfuðborgarsvæðisins miðað við sömu fjárhæð sem um er að tefla og var í upphaflegu tillögunum. Auðvitað mundi ég fagna því að aukið fjármagn kæmi hér inn. Auðvitað vilja allir fá meira fjármagn til samgöngumála. Ég náttúrlega hálfvorkenni hæstv. samgönguráðherra að þurfa að skipta þessu. Það eru margir sem hafa hátt og allir vilja fá sitt og annað slíkt en þessi skipting var fyrir neðan allar hellur og tími til kominn að þetta breyttist aðeins. Ég er ekki að tala um neina óskapa breytingu, en a.m.k. þá að við förum úr liðlega 20% upp í tæp 30% af hlutdeild í þessu.

Eins og kunnugt er búa á höfuðborgarsvæðinu 185 þúsund manns, eða um tveir þriðju þjóðarinnar. Sagt hefur verið að þessir vegir úti á landi séu vegir okkar allra og það er alveg rétt. Það er líka alveg rétt eins og ég hef haldið fram að samgöngumál á landsbyggðinni eru grundvöllur þess að hún geti þrifist, ef menn fara rétt með þær fjárfestingar, það er ekki sama hvernig menn gera þetta. Það eru samgöngumál og styrking menntastofnana úti á landi sem er grundvöllur þess að halda fólkinu þannig að það streymi ekki allt hérna inn á þetta svæði.

Ef við setjum okkur nú í spor fólks sem býr hér á þessu svæði, sem keyrir um göturnar sem ríkið á ekki en ríkið er að rukka fyrir tekjurnar vegna þess arna, það náttúrlega segir: Allt í lagi — við ætlum ekkert að heimta allt miðað við hlutfallið, en við viljum fá okkar hlutdeild, við viljum náttúrlega fá umferð hér sem fækkar slysum og við viljum fá umferðarmannvirki þannig að við getum verið fljótari í vinnuna á morgnana og úr vinnunni. Tíminn kostar peninga.

Menn hafa verið að lýsa því hér, hæstv. ráðherra og fleiri, að þetta sé bara allt saman eðlilegt, þetta sé allt eðlilegt, þetta eigi bara að vera svona. Ég segi — menn sem tala svona, þeir eru ekki ráðherrar þessa svæðis, það er vandamálið. Þau viðbrögð sem ég hef fengið frá fólki eftir að hafa haft orð á þessu og lagt þetta til eru alveg hreint ótrúleg.

Síðan eru breytingar í 7. lið sem eru tengivegir í Suðvesturkjördæmi í kafla 4.3.1 í áætluninni. Í fyrsta lagi legg ég til breytingu á lýsingu á Elliðavatnsvegi, virðulegi forseti. Núna er þessum vegi lýst þannig: „Af Breiðholtsbraut við Dimmu, um Vatnsenda, á Reykjanesbraut ofan Hafnarfjarðar.“ Það er búið að loka parti af þessum vegi, hann er farinn og partur af honum er orðinn innanbæjargata í Kópavogi. Búið er að byggja nýjan veg, ekki með þátttöku Vegagerðarinnar, sem heitir Vatnsendavegur, þannig að ég vil að lýsingin verði eftirfarandi:

„Af Breiðholtsbraut um Vatnsendaveg að bæjarmörkum Garðabæjar, (þaðan í Hafnarfjörð) og síðan á Reykjanesbraut ofan Hafnarfjarðar.“

Í b-lið bætast við tveir tengivegir í Suðvesturkjördæmi, sem eru í umsjón Vegagerðarinnar. Alls staðar á landinu eru tengivegir skilgreindir þeir vegir sem liggja niður að höfnum. Það er varla svo lítill staður sem svo er ekki, nema það eru tveir bæir á landinu sem hafa það ekki, það er Kópavogsbær og Hafnarfjarðarbær. Mín tillaga er eftirfarandi:

Ef maður tekur tengivegi eða þjóðvegi í þéttbýli eða hvað þetta er, þarna er verið að breyta og hræra með nöfnin á þessu alltaf fram og til baka, þá eru þjóðvegir í þéttbýli eða tengivegir t.d. í Kópavogi, Nýbýlavegur, sem sagt frá Reykjanesbraut að Hafnarfjarðarvegi eða að ljósunum þar. Ég legg til að þetta verði: „Kársnesbraut: Frá Hafnarfjarðarvegi um Vesturvör og að Kópavogshöfn.“

Síðan í Hafnarfirði: „Ásbraut: Frá Reykjanesbraut svo um Fornubúðir að Hafnarfjarðarhöfn.“

Þá eru báðir þessir bæir búnir að fá tengivegi að höfnum sínum. Hjá Reykjavíkurborg eru þetta tveir vegir, bæði að Sundabakka og Holtabakka.

Virðulegi forseti. Þetta eru breytingartillögur mínar sem ég vona að menn taki tillit til við afgreiðslu samgönguáætlunar. Mér þykir miður að þetta skuli vera komið í þennan farveg. En það var ekki möguleiki á neinu öðru en að þetta mundi enda á þennan hátt.

Á þessu ári eru tólf hundruð milljónir til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu, nýframkvæmdir — á næsta ári tólf hundruð milljónir, þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa — tólf hundruð milljónir — þó svo það réttist nú aðeins við árið 2007 og 2008. Menn verða því að hlusta á fólkið hér. Þetta fólk er kjósendur líka hér á þessu svæði. Það eru ekki bara kjósendur til úti á landi eða í Fljótum eða á Siglufirði, Ísafirði, Barðaströnd eða hvað það heitir. (Gripið fram í: … Kópavogi.)

Þetta er of langt gengið og því kemur þessi breytingartillaga fram. Ég legg til, virðulegi forseti, eðlilega að hún verði samþykkt og ég hef lokið máli mínu í bili.