131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:04]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst svar hv. þingmanns, sem er í raun ekki svar við því sem ég spurði um, sýni það og sanni að þessi breytingartillaga er ekki annað en grín. Við ættum kannski bara að taka hana fyrir á þessum kvöldfundi sem skemmtiatriði vegna þess að það stendur ekki steinn yfir steini í þessu eins og hv. þingmaður staðfesti. Varðandi þær 1.000 milljónir sem teknar eru frá þarna þá eru það ekki 800 millj. kr. sem þarf að taka frá árið 2006. Það þarf að borga verktakanum fyrir Fáskrúðsfjarðargöng 1.200 millj. kr. á þessu ári.

Getur hv. þingmaður getur þá sagt mér, ef við förum í þá loftfimleika sem hann leggur til, að taka fé frá árinu 2006 og borga þá, hvaða framkvæmdir á þá að skera niður árið 2006?

Í öðru lagi, virðulegi forseti, til að sýna fram á hvers konar grínplagg þetta er, sem sennilega er ekki samboðið Alþingi að vinna með, eru hér í fyrsta lið breytingar á Egilsstaðaflugvelli þar sem bætt er við peningum. Það er viðbót og engar tekjur á móti þessu. Það eru ekkert skornar niður framkvæmdir á Þingeyrarflugvelli, eins og hv. þingmaður var að tala um. Þær standa enn í meirihlutaáliti sem hér liggur fyrir. Það verður að fá úr því skorið, virðulegi forseti, og hv. þingmaður verður að útskýra það betur hvernig í ósköpunum eigi að líta á þetta plagg sem eitthvað annað en grínplagg, sett fram til að slá sig til riddara og stinga hníf í bak samflokksmanna og samstarfsmanna hv. þingmanns í ríkisstjórn sem standa að meirihlutaálitinu. Annað er ekki hægt að gera, virðulegi forseti, til að vita hvernig á að ræða þetta á vitrænan hátt. Það þurfa að fylgja peningar með í þessa framkvæmd.

Sé þetta svona þá vantar 1.000 millj. kr. í tekjur fyrir árið 2005 eða þá að ekki eigi að gera upp við verktakann vegna Fáskrúðsfjarðarganga.