131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:06]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þannig með ágætan hv. þingmann Kristján Möller, að hann tapar alltaf heyrn þegar hann vill ekki heyra. Þá kemur hann með sömu tugguna aftur og aftur. Ég hef skýrt hvernig hægt er að leysa þetta mál. Þetta snýst um að hægt er að færa peninga til, en það hefur engin áhrif á heildarupphæð til jarðganga í tillögu minni. Svo ég svari því.

Í öðru lagi varðandi Þingeyrarflugvöll þá legg ég náttúrlega til að þar verði engar framkvæmdir en fjármagn (Gripið fram í.) fært frá Þingeyrarflugvelli yfir á Egilsstaðaflugvöll til að lengja hann.

Það er ekki verið að stinga einn eða neinn í bakið. Það getur vel verið að hv. þingmaður vilji kalla þetta gríntillögu en málið er að menn, sumir þingmenn landsbyggðarinnar eins og hv. þingmaður, vilja endalaust ganga á höfuðborgarsvæðið, því miður.