131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:08]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Birgissyni fyrir ágæta yfirferð yfir þær breytingartillögur sem hann vill gera við meirihlutaálit samgöngunefndar varðandi samgönguáætlun til næstu ára. Ég verð þó að viðurkenna að mér geðjast ekki að málflutningi hv. þingmanns, sem mér hefur þótt einkennast af upphrópunum aðallega, sem hafa því miður náð eyrum fjölmiðla og tilgangurinn hefur kannski þar með helgað meðalið.

Hv. þingmaður sagði áðan að Siglfirðingar gætu farið í bíó til Akureyrar ef af framkvæmdunum yrði. Hvers lags talsmáti er þetta gagnvart íbúum í viðkomandi byggðarlögum? Hv. þingmaður virðist ekki betur að sér um staðhætti í Fljótum en svo að hann talar um jarðgöng frá Siglufirði inn í Fljót að Ketilsstöðum, sem eru ekki til í Fljótum. Hann talar um jarðgöng undir Lágheiði, sem aldrei hafa verið rædd.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér rannsóknir Vegagerðarinnar á þessari framkvæmd og rannsókn Háskólans á Akureyri á arðsemi þeirra framkvæmda sem þarna eru fyrirhugaðar.