131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:11]

Gunnar Birgisson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, ég samþykkti samgönguáætlun árið 1999. Ég gerði það líka 2001 og ég gerði það líka 2003, og eitt atriðið í henni voru Héðinsfjarðargöng. Síðan var því slegið á frest og þeim framkvæmdum frestað.

Ekkert er hafið yfir gagnrýni og ef menn geta fundið aðrar og betri leiðir, eins og ég er að benda á. Ég bendi hv. þingmanni bara á hvað gerist ef Almenningar eða Siglufjarðarskriðurnar fara af stað og vegurinn þar fer burt. Hvað gera þá bændur og búalið á Siglufirði og í Fljótum? Ég segi: Þetta er öryggisleiðin. Menn geta byrjað á henni og farið síðan yfir til Ólafsfjarðar úr Fljótum.

En ég skil hv. þingmann, að hann verji óðal sitt, eins og þeir báðir hv. þingmenn Kristján Möller og Birkir J. Jónsson. Þeir eru báðir frá Siglufirði en það er enginn sem getur komið mér af þeirri skoðun að þetta sé mjög vafasöm fjárfesting.