131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:13]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Gunnar Birgisson hefur lagt fram hugmynd sína um samgönguáætlun og ég býst við gætum flest lagt fram okkar áherslur ef út í það væri farið.

Meginmálið er að hér er skipt minna fjármagni en gert hafði verið ráð fyrir í kynntri og samþykktri vegáætlun. Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki samþykkt fjárlögin í haust, sem kváðu á um þennan niðurskurð, upp á 2 milljarða kr. á þessu ári og annað eins á næsta ári.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki líka samþykkt niðurskurð frá samgönguáætluninni á síðasta ári, upp á nærri 1.800 millj. kr. eða um það bil. Samþykkti hann það ekki líka þá. Einnig spyr ég hvort þetta hafi ekki verið hluti af kosningaloforðum Sjálfstæðisflokksins, sem hann tók þátt í að samþykkja og kynna.