131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[22:15]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég spyr hv. þingmann hvað honum finnist um það háttalag, um þá framkomu, að fara til kosninga með loforð upp á 6–8 milljarða kr. meiri framkvæmdir á þremur árum en ætlunin er að standa við. Hvað finnst honum um það háttalag? Ætlar hann að verja það?

Varðandi þensluna, nú er hv. þingmaður mjög kunnugur í framkvæmdum. Hvað hefur gerst síðan þetta var samþykkt? Hið eina sem hefur gerst er að í rauninni hefur aukist fjármagn í umferð og þess vegna ætti að vera mögulegt að ráðast í auknar framkvæmdir. Er nú víst að þessi niðurskurður hafi endilega svo mikil áhrif á efnahagsþróunina og stöðu efnahagsmála, eða var rétt að grípa þarna niður í að skera?

Frú forseti. Hvernig ætlar þingmaðurinn að verja það að svíkja kosningaloforðin um 6–8 milljarða kr. á þremur árum?