131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:21]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað með athygli á málflutning hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar um samgönguáætlun. Ég hef oft hlustað á hann ræða um samgöngumál og málefni landsbyggðarinnar. Oft höfum við átt samhljóm en, virðulegi forseti, kannski sem betur fer, stundum er ég ekki alveg sammála hv. þingmanni. Þannig var það með töluverðan hluta af hans yfirgripsmiklu ræðu nú.

Ég held að það hafi komið fram í fjölmiðlum, virðulegi forseti, að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi lýst því yfir að hann mundi styðja breytingartillögu hv. þm. Gunnars Birgissonar við samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008. Hv. þingmaður eyddi töluverðum tíma í byrjun í að lýsa því í ræðu að hann styddi ekki lengur ríkisstjórnina í þeim niðurskurði á vegáætlun sem hér er boðuð. Hann hafi að vísu stutt það 2004 en styðji það ekki 2005 og 2006.

Því spyr ég, virðulegi forseti, hv. þm. Kristin H. Gunnarsson: Styður hann breytingartillögu hv. þm. Gunnars Birgissonar sem gerir ráð fyrir 650 millj. kr. lægri framlögum til vegamála á þessu ári, árið 2005?