131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:22]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég styð tillögu hv. þm. Gunnars Birgissonar um að falla frá Héðinsfjarðargöngum og að þess í stað verði ráðist í Fljótagöng. Ég styð líka þau sjónarmið hv. þingmanns að óeðlilegur munur sé á dreifingu framkvæmdafjár milli landsbyggðar annars vegar og höfuðborgarsvæðis hins vegar. Þegar menn ganga of langt gagnvart höfuðborgarsvæðinu getur það verið stórkostlega varasamt fyrir landsbyggðina. Ég held að það sé ekki skynsamlegt.

Ég er hins vegar ekki sammála þeim sjónarmiðum að dreifing fjárins eigi eingöngu að fara eftir höfðatölureglu, ef þau sjónarmið eru á annað borð uppi. Ég tel að auðvitað eigi lengd vega, ástand og umferð að ráða því eins og verið hefur. En ég tel því miður að í þeirri tillögu sem liggur fyrir núna hafi menn gengið of langt í að skera niður vegafé til brýnna verkefna á höfuðborgarsvæðinu.