131. löggjafarþing — 128. fundur,  9. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[23:28]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ekki beri að skilja orð hv. þingmanns þannig að ef ég styðji ekki Héðinsfjarðargöng þá muni hann ekki styðja Dýrafjarðargöng. Ég vona að það megi ekki skilja orð hans þannig að hann sé með hótanir um að beita sér gegn þeim vegna þess að honum líki ekki skoðun mín á Héðinsfjarðargöngum. Hann leiðréttir það í andsvari ef hann telur ástæðu til.

Ég vil segja, virðulegi forseti: Leiðin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar liggur ekki endilega um Héðinsfjarðargöng. Valkostirnir eru í þessu máli, eins og ég hef dregið þá upp. Annar valkosturinn, sá sem ég tel skynsamlegast að fara, kostar um 4 milljarða kr. Hinn valkosturinn, sem hv. þm. Birkir J. Jónsson vill fara, kostar á bilinu 8–13 milljarða kr. (Gripið fram í: Þetta hækkar alltaf.) Hvað vill hv. þingmaður skera niður annars staðar á landinu til að eiga fyrir þessum mismun? Ætlar hann að fresta göngum undir Oddsskarð? Hversu lengi? Ætlar hann að fresta göngum til Vopnafjarðar? Hversu lengi? Ætlar hann að fresta göngum til Dýrafjarðar? Hversu lengi?

Hversu lengi ætlar hann íbúum annars staðar á landinu, sem bíða eftir brýnum samgöngubótum vegna þess að þeir þurfa á þeim að halda, að bíða vegna þess að hann vill eyða fleiri milljörðum til samgöngubóta á öðrum stöðum en nauðsynlegt er?