131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:12]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var einkennilegt að hlusta á hv. þm. Helga Hjörvar koma hér og tala um sífelldan undanslátt samgönguráðherra vegna Sundabrautarinnar. Hann talar eins og það sé löngu ákveðið af hálfu Reykjavíkurborgar hvar vegurinn skuli liggja.

Virðulegi og ágæti alþingismaður. Ég er hérna með bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík sem dagsett er 6. apríl 2005, undirritað af Steinunni Valdísi Óskarsdóttur. Ég ætla að vitna aðeins í þetta bréf. Þar segir um Sundabraut, með leyfi forseta:

„Fljótlega er að vænta úrskurðar umhverfisráðherra vegna kæru á mati á umhverfisáhrifum Sundabrautar. Um leið og úrskurður ráðuneytisins liggur fyrir má gera ráð fyrir að niðurstaða fáist um legu brautarinnar.“ — Þá má gera ráð fyrir því. Síðan heldur borgarstjórinn áfram: „Matið leiddi í ljós að verulegur kostnaðarmunur er á innri leið og þeirri ytri og er vandséð að aðrar niðurstöður umhverfismatsins réttlæti kostnaðaraukann.“

Meiri hlutinn í Reykjavík hefur haldið því fram lengi vel að það ætti að vera brú. Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi lét að því liggja að það væri nú ekki mikið að því fyrir borgarbúa að henda einhverjum peningum í bauk um leið og þessi brú væri ekin. Honum fannst sjálfsagt að það væri einhver gjaldtaka, en hér fór stór hluti ræðu hv. þingmanns í að andmæla því.

Í annan stað vildi ég gjarnan fá svar frá hv. alþingismanni við eftirfarandi spurningu: Hver er afstaða hans til mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar sem voru tekin út af skipulagi af núverandi meiri hluta 1994? Hver er afstaða hans? Hér hafa menn talað um mikla slysahættu vegna þess að ekki hefur verið nóg unnið í mislægum gatnamótum. En nú er trekk í trekk — og nota ég eigin orð þingmannsins — eilífur undansláttur (Forseti hringir.) í ákvarðanatöku um mislæg gatnamót hjá Samfylkingunni eða R-listanum.