131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:15]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst um Sundabrautina því að ég svaraði því í sjálfu sér í ræðu minni. Það kom fram í ræðu þess sem talaði á undan mér, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að hér liggja fyrir í samgönguáætlun fjárveitingar í vegaframkvæmdir sem enn hafa ekki farið í gegnum umhverfismat. Það er ekkert vandamál þegar Vestfirðir eru annars vegar. Það er væntanlega ekkert vandamál þegar Norðurland er annars vegar eða Austfirðir. Það er ekki nema í Reykjavík sem gerðar eru þær kröfur að framkvæmdir séu fullhannaðar og endanlegar áður en nokkrir fjármunir eigi að sjást í langtímaáætlun á borð við þá samgönguáætlun sem hér er.

Menn vita það bæði í samgönguráðuneytinu og hjá Reykjavíkurborg að niðurstaða um leiðina yfir voginn liggur fyrir í júní. Þá tekur tvö ár að hanna brautina og síðan er hægt að hefja framkvæmdir. Það sem á að standa í þessari áætlun er fjármagn til þeirra framkvæmda, hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson. Þeir fjármunir eru ekki þarna og það er að skila auðu í samgöngumálum Reykvíkinga.

Hvað varðar mislæg gatnamót við Kringlumýri og Miklubraut þá er gert ráð fyrir þeim mislægu gatnamótum á aðalskipulagi Reykjavíkur. Ég verð þó að segja það sem mína skoðun að framkvæmd á Hlíðarfæti tel ég að sé miklum mun vænlegri til þess að eiga við þann vanda sem við er að fást á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, sem er sú mikla umferð sem kemur úr suðurbæjunum, vegna þess að þó að við leysum þau á gatnamótum Kringlumýrar og Miklubrautar, og það skiptir vissulega máli, flyst vandinn í sjálfu sér bara til á næstu gatnamót. En með því að leggja Hlíðarfótinn í göngum undir Öskjuhlíð getum við tekið nokkuð af þeirri umferð um Hlíðarfótinn og gegnum Vatnsmýrina og inn á Hringbrautina og það eru þá bílar sem þurfa aldrei að fara um gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar og geta þess vegna létt verulega á því umferðarálagi sem þar er, en þar eiga að sjálfsögðu að koma mislæg gatnamót.