131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[00:30]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Þetta er um margt búin að vera fróðleg umræða um samgönguáætlunina. Varla greinir okkur á um það, þingmenn, að bættar samgöngur hér á landi eru einhverjar arðsömustu framkvæmdir sem við getum farið í. Ekki fer á milli mála eins og mál hafa þróast hér á landi að undanförnu þar sem flutningar hafa farið meira á þjóðvegina, og nánast eingöngu eftir að skipaflutningar lögðust svo til af, að uppbygging vegakerfisins er mjög brýnt mál. Það er ekki undarlegt að um það séu nokkrar meiningar hjá fólki sem býr á Íslandi og býr við mjög misjafnar aðstæður að því er varðar vegakerfið. Þar þarf að gera róttækt átak til lagfæringar og til bættra samgangna.

Það er ekki bara fólkið í byggðarlögunum sem hefur komist að þeirri niðurstöðu sem ég var að vitna til, að gera þyrfti átak í samgöngumálum, ég held að hægt sé að fara mjög langt aftur í tímann á hv. Alþingi og fletta upp í samþykktum þingsins um það til hvers þyrfti að horfa í samgöngumálum til að efla samgöngukerfið og koma því í nútímahorf. Það eru ekki bara íbúarnir sem við eiga að búa sem hafa á undanförnum árum verið að senda frá sér ályktanir og áskoranir um það að vel verði unnið í samgöngumálunum, heldur má segja að Alþingi hafi gert það einnig, þó kannski aðallega á kosningaárum, þ.e. í aðdraganda alþingiskosninga. Þá hafa menn komið fram með mjög róttækar tillögur, og fjármuni jafnvel, til að búa til átak í samgöngumálum. Auðvitað ber því að fagna þegar það er gert en með sama hætti er óhætt að draga það saman, a.m.k. á seinni árum, að dregið hefur verið úr þessum sömu fjárveitingum eftir að kosningaár er liðið. Það er akkúrat þannig ástand sem við erum að upplifa nú, hæstv. forseti. Við erum að upplifa það að dregið hefur verið úr fjárveitingum á þessu ári um 1,9 milljarða, fyrirhugað á næsta ári 2 milljarða og á árinu 2007 um 1,8 milljarða.

Þetta er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og veldur auðvitað fólkinu í landinu miklum vonbrigðum, sérstaklega á þeim svæðum þar sem menn hafa lagt mikla áherslu á það að komast með vegakerfið eitthvað í átt að nútímanum. Ég held að á engan sé hallað þó að við nefnum Vestfirðina í því sambandi þar sem við erum enn þá að keyra á stofnbrautunum, á drullunni ef hægt er að orða það þannig, á malarvegunum sem detta niður í foraðið þegar þannig viðrar og þola engan veginn svo vel sé þá miklu flutninga sem á vegina hafa komið á undanförnum árum.

Ég ætla ekki að vitna langt aftur í fortíðina en ég ætla þó að leyfa mér að lesa upp úr nefndaráliti frá 125. löggjafarþingi um jarðgangaáætlun. Ég vitna í meginefnið í því nefndaráliti frá samgöngunefnd, með leyfi forseta:

„Það er niðurstaða samgöngunefndar að jarðgangagerð sé áhrifarík leið til samgöngubóta þar sem þeim verður ekki komið við með öðrum hætti þannig að viðunandi teljist. Með jarðgöngum má rjúfa vetrareinangrun, stækka atvinnu- og þjónustusvæði og tengja saman byggðarlög með þeim hætti að skilyrði skapist fyrir eflingu byggðar og hagstæða íbúaþróun.“

Þetta var í þingskjali um stefnumótun í jarðgangaáætlun fyrir árin 2000–2004, virðulegi forseti. Við erum núna á árinu 2005 að ræða samgönguáætlun. Það verður að segjast alveg eins og er að því miður bárum við ekki gæfu til þess hér með okkar þjóð að halda áfram markvisst eftir að við tókum í notkun jarðgöngin á Vestfjörðum eða Hvalfjarðargöngin, við bárum ekki gæfu til að halda áfram gerð varanlegra samgöngulausna eins og jarðganga. Mörg ár aðhöfðumst við ekkert í þá veru, því miður. Síðan höfum við farið í Fáskrúðsfjarðargöng og í Almannaskarðsgöngin fyrir austan. Þær framkvæmdir hafa báðar gengið vel en í mörg ár vorum við ekkert að aðhafast í jafnmiklum samgöngubótum og jarðgöng hafa reynst vera, bæði til styttingar vegalengda og ekki síður til að auka umferðaröryggi. Það geta menn séð ef þeir skoða slysaskráningu hér á landi að jarðgöngin hafa reynst afar öruggar samgönguleiðir. Sáralítið hefur verið um óhöpp og slys, bæði í Hvalfjarðargöngum og Vestfjarðagöngum. Ég minni á það að áður en þessi jarðgöng tvenn komu til urðu því miður oft dauðaslys, bæði í Hvalfirði og eins á heiðunum fyrir vestan.

Það er ekki spurning að sú niðurstaða sem samgöngunefnd komst að á löggjafarþinginu 1999–2000 sem ég vitnaði til áðan á fyllilega við rök að styðjast. Í raun og veru er sárt til þess að vita að menn skyldu ekki hafa borið gæfu til að fylgja því eftir sem við vorum byrjuð á að þessu leyti.

Fyrir alþingiskosningarnar síðustu var lagt af stað með það að setja verulega fjármuni í vegaframkvæmdir. Það var gert og ber vissulega að þakka það, m.a. hefur það orðið til þess að okkur tókst á Vestfjörðum að gera þó nokkurt átak í að koma bundnu slitlagi á vegi í Ísafjarðardjúpi og þó nokkuð komumst við áfram á Barðaströndinni milli Flókalundar og Bjarkalundar.

Það verður hins vegar að segjast alveg eins og er, hæstv. forseti, að ekki horfir vel með framkvæmdir á þessum malarvegum, eins og á Vestfjörðum, á næstu árum. Það eru litlar fjárveitingar til þessara verkþátta á þessu ári og því næsta og síðan ætla menn að bæta verulega í á árunum 2007, enda þá kosningaár, og 2008. Ég velti því satt að segja fyrir mér, og kom reyndar mjög oft inn á það hér í umræðunum síðasta haust um fjárlögin, hvort nokkur skynsemi væri í því að haga sér eins og við höfum verið að gera að því er varðar fjárveitingar til vegaframkvæmda með því að gera það sem við höfum verið að gera, að skera niður framkvæmdirnar um tæpa 2 milljarða þrjú ár í röð. Síðan er ákveðið að við ætlum að bæta verulega í á árunum 2007 og 2008. Þar erum við vissulega að tala um að taka inn mikla fjármuni og auka verulega í að þessu leyti. Það sem gerist þá er það að við aukum framkvæmdaféð um 4,5 milljarða hvort árið um sig, 2005 og 2006, og framlag ríkisins vex úr rúmum 2 milljörðum á árunum 2005 og 2006 í 6,5 milljarða, hvort árið 2007 og 2008.

Ég velti því sannarlega fyrir mér, hæstv. forseti, og hef svo sem spurt þeirrar spurningar þegar við höfum rætt við Vegagerðina án þess að fá kannski skýr svör, hvort það sé mikið vit í því að fara svona í málin, draga saman framkvæmdirnar núna og ætla síðan að auka þær verulega, þ.e. um 4,5 milljarða á árunum 2007 og 2008. Þá förum við að bjóða út mun fleiri verk, væntanlega. Þá held ég að hætt verði við því að við, þ.e. þjóðin og Vegagerðin sem býður út verkin, fáum ekki þau hagstæðu tilboð sem ella gæti verið. Þá er verið að bjóða út tiltölulega mikið framkvæmdamagn á stuttum tíma, tveimur árum. Nær hefði verið að halda sig við þá áætlun sem búið var að gera og vera með nokkuð góða verkáætlun, á árunum 2004, 2005 og 2006, og halda sig við það að hafa 2 milljörðum meira inni í fjárlögunum að því er varðar vegaframkvæmdirnar.

Þetta benti ég margsinnis á í haust í ræðu varðandi fjárlögin. Ég sagði reyndar nokkrum sinnum að ég drægi mjög í efa að það væri skynsamleg ráðstöfun að draga úr þessum fjárveitingum á árunum 2005 og 2006 og að það mundi ekki þjóna neinum þeim tilgangi að draga úr þenslu eins og menn létu í veðri vaka. Það virðist vera sitt hvað, menn tala um framkvæmdir í vegamálum og að þar eigi að draga úr þenslu en síðan er hægt að fara í alls konar aðrar framkvæmdir eins og voru nefndar í umræðunni í kvöld.

Ég hef margspurt að því, m.a. hæstv. samgönguráðherra, hvort hann geti sagt mér hvað 60 kallar inni í fjalli búi til mikla þenslu. Auðvitað hafa ekki komið nokkur einustu svör við því, menn hafa bara sagt að talið væri að þetta ylli þenslu.

Í Norðvesturkjördæminu er a.m.k. ekki um mikla þenslu að ræða. Sem betur fer njótum við uppbyggingar í suðurhluta kjördæmisins, í Hvalfirði varðandi stóriðjuna. Því fylgja vissulega margfeldisáhrif eins og öllum framkvæmdum. Að öðru leyti, eftir að kemur norður fyrir Borgarfjörðinn, held ég að menn finni ekki mikil þensluáhrif neins staðar í kjördæminu, því miður. Því miður held ég að við séum bara víða að upplifa í Norðvesturkjördæminu samdrátt og fækkun íbúa, enn þá, þó að við vonumst vissulega til þess að geta snúið þeirri þróun við. Aðrir eru líka að vonast eftir því, ekki bara sá sem hér stendur. Á þessu ári var kynntur Vaxtarsamningur Vestfjarða, plagg sem unnið var á vegum byggðamálaráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, og unnið af nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði. Í bréfi sem fylgdi þessari ágætu skýrslu sem var afraksturinn af því starfi segir, með leyfi forseta:

„Í árslok 2003 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir verkefnishóp til að gera tillögur um byggðaáætlun fyrir Vestfirði.“ — Síðan kemur upptalning á því hverjir voru í hópnum og þar var formaður Baldur Pétursson frá iðnaðarráðuneytinu. Þar voru ýmsir aðrir sem ég ætla ekki að telja upp enda skiptir það ekki öllu máli.

„Hlutverk nefndarinnar var að leggja áherslu á verkefni sem líkleg eru til að skila árangri í styrkingu atvinnulífs og annarra búsetuskilyrða á Vestfjörðum og gera tillögur til ráðherra um aðgerðir í byggðamálum fyrir Vestfirði þar sem lögð yrði áhersla á að styrkja Ísafjörð sem byggðakjarna á Vestfjörðum.“

Síðan segir:

„Iðnaðarráðherra mun yfirfara og meta tillögur verkefnisstjórnar á næstunni og kalla eftir samstarfi við önnur ráðuneyti og bæjaryfirvöld á Ísafirði, sveitarfélög og atvinnulíf á svæðinu sem og aðra. — Reykjavík, í febrúar 2005.“

Í þessari samantekt, Vaxtarsamningi Vestfjarða, er auðvitað komið að samgöngumálum sem einni af meginröksemdunum fyrir því að svæðið þurfi á breytingu að halda að því leyti til. Undir kaflanum Tillögur á öðrum sviðum eru undirkaflarnir: Bættar samgöngur — styttingar á akstursleiðum á Vestfjörðum og Áhersla á sameiningu og samstarf sveitarfélaga. Við vitum að þetta gerist ekki nema með bættum samgöngum og öðru slíku. Síðan segir í kaflanum um samgöngur, með leyfi forseta:

„Þessar samþykktir í vegamálum hafa gengið hægt eftir og telur starfshópur F[jórðungssambands] V[estfjarða] að helstu staðreyndir séu þær að Vestfirðir reki lestina á landsvísu í uppbyggingu vegakerfisins, þungaflutningar aukist stöðugt með tilheyrandi sliti á vegum og áhyggjum af minnkandi öryggi vegfarenda, og bundið slitlag vanti enn á milli einstakra þéttbýliskjarna. Einnig sé óvíst hversu langt sé í land að brýnustu verkefnunum ljúki og að heilsárssamgöngur milli samgöngusvæða á Vestfjörðum sé draumsýn ein næstu áratugina nema vegafé verði aukið til muna.“

Ég er að lesa upp úr skýrslu sem var unnin fyrir byggðamálaráðherra, gefin út í janúar síðastliðnum, hæstv. forseti.

Áðan vitnaði ég í áherslur frá jarðgangaáætlun fyrir árin 2000–2004. Auðvitað er einnig hægt að vitna í eldri samgönguáætlanir. Ég held að það þurfi samt ekki til að draga það fram í málinu sem ég er að gera, sem er einfaldlega það að nánast allir sem hafa fjallað um stöðu Vestfjarða á undanförnum árum hafa dregið það fram að vegakerfið væri einn af þeim þröskuldum sem við yrðum að lagfæra og það fljótt, m.a. til að hafa áhrif á búsetuskilyrði á svæðinu og til að tryggja vonandi nýja uppbyggingu í Vestfjarðafjórðungi.

Nú eru Vestfirðir aðeins einn hluti af kjördæmi okkar en ég held að samt megi segja sem svo að vegirnir á Vestfjörðum séu afar sérstakir miðað við kjördæmið í heild. Stofnbrautirnar eru enn þá malarvegir sem þola alls ekki nútímaflutninga. Þess vegna er krafa Vestfirðinga sú að fá að komast upp úr drullunni, losna við vegina sem detta niður og eru nánast ófærir langtímum saman ef veðurfar er slíkt.

Þess vegna er ekki skrýtið, hæstv. forseti, að við þingmenn Norðvesturkjördæmisins gerum mikla kröfu um að fá að halda uppi miklum og góðum framkvæmdum að því er varðar vegakerfið, sérstaklega meðan það er eins og það er. Er þó þetta sem ég nefndi um vegina á Vestfjörðum ekki einsdæmi.

Ný leið sem við höfum verið að byggja upp milli Skagafjarðar og Húnaflóa, Þverárfjall, er enn þá að stórum hluta til malarvegur. Þetta er að verða ein mesta flutningsleiðin á milli svæðanna, mikið notuð flutningsleið til Reykjavíkur og vaxandi. Þar er komin upp sama staðan að hluta til eins og á Vestfjörðum þó að þar séu vissulega nýir kaflar sem hefur verið unnið að á undanförnum árum.

Við búum við það, bæði frá suðurhluta Vestfjarða og norðursvæðinu, sem og Ströndum, að þurfa að nota malarvegi sem aðalflutningsleið. Það er gjörsamlega óásættanlegt. Þegar við horfum á þá fjármuni sem eru núna inni í vegáætlun er ekkert undarlegt þó að fólk segi: Þetta gengur ekki, þarna verður að taka til hendinni.

Þess vegna segi ég það, hæstv. forseti, að mönnum hefði verið nær að hugsa til þess við afgreiðslu fjárlaganna í haust að það þyrfti aukna fjármuni inn í samgönguáætlun. Núna sitjum við uppi með það, eins og ég gat um áður, að til eru sáralitlir fjármunir til að takast á hendur framkvæmdir í Ísafjarðardjúpi á þessu og næsta ári og sama er að segja um veginn frá Bjarkalundi og vestur í Flókalund. Við sitjum uppi með það. Þar til viðbótar er sú leið sem Strandamenn hafa lagt mikla áherslu á, og ekki bara Strandamenn heldur einnig íbúar við Ísafjarðardjúp, og hún er sú að leggja áherslu á að lagður verði nýr og uppbyggður vegur yfir Arnkötludal frá Steingrímsfirði og yfir í Króksfjörð. Sú leið styttir vegalengdina frá Hólmavík og frá norðurhluta Vestfjarða um 40 kílómetra og menn hafa lagt vegi fyrir minna. Ég minni á Fáskrúðsfjarðargöngin sem vissulega lögðu af erfiðan veg út fyrir Vattarnes, ætli þar hafi ekki verið um 28 kílómetra styttingu að ræða. Ég er mjög ánægður með að farið skuli hafa verið í þá framkvæmd. Þetta segi ég til að bera saman áherslurnar að því er varðar Arnkötludal og það sem verið er að gera annars staðar á landinu.

Ég legg á það mikla áherslu, hæstv. forseti, að við snúum af þessari villu vegar sem ég vil kalla svo, að draga úr framkvæmdafé til samgöngumála. Ég lýsi því yfir að ég mun reyna að beita mér fyrir því að við afgreiðslu fjárlaga næsta haust verði sett meira fé í samgöngumálin. Þá reynir á hvort menn vilja fella slíka tillögu við afgreiðslu fjárlaganna á næsta hausti. Ég held að við komumst ekki hjá því að flýta framkvæmdum á þeim svæðum landsins þar sem vegirnir eru verstir. Þá er ég hvorki að gera lítið úr þörf annarra kjördæma fyrir að fá lagfæringar á þjóðvegum á sínum svæðum né úr því að framkvæma þurfi að á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég hef áður lýst því úr þessum ræðustól að ég líti svo á að Sundabrautin sé ekki einkamál Reykvíkinga, heldur er hún þjóðbraut sem nýtist öllum landsmönnum og skiptir verulegu máli fyrir samgöngur allra landsmanna að og frá borginni. Alveg örugglega mundi Sundabraut skipta mjög miklu fyrir suðurhlutann í mínu kjördæmi, þ.e. atvinnuþróun og uppbyggingu á Akranesi, í Borgarfirði og á Hvalfjarðarsvæðinu. Þetta held ég að öllum hljóti að vera ljóst. Þess vegna held ég að menn þurfi ekki að deila mikið um það að þeir fulltrúar landsbyggðarinnar sem horfa á samgöngumálin nokkuð heildstætt hafi ekki áhuga á því að hafist verði handa við gerð Sundabrautar.

Við megum heldur ekki gleyma því að ég hygg að allir þingmenn hafi stutt tvöföldun Reykjanesbrautarinnar svo að dæmi sé tekið. Hið sama á við um tvöföldun Vesturlandsvegar milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Því ber auðvitað að fagna sem verið er að gera í samgöngumálum á þeim þjóðvegum sem eru út frá borginni þar sem umferð er virkilega mikil, eins og á Hellisheiðinni.

Allt þetta sem við viljum gera verður ekki gert nema með fjármunum. Þar komum við í raun og veru aftur að því sem ég sagði í upphafi máls míns, það er ekki nóg að lofa gulli og grænum skógum fyrir kosningar og draga svo alltaf úr eftir kosningar — og gefa svo aftur í á árinu 2007 og draga svo aftur úr á árinu 2009 ef sama ríkisstjórn heldur velli, sem vonandi verður ekki. (Gripið fram í.) Ég ætla að leyfa mér að vona það, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, að ríkisstjórnin haldi ekki velli í næstu kosningum. Það er alveg kominn tími á að skipta um ríkisstjórn í þessu landi.

Sá sem hér stendur hefur haft mikinn áhuga á því að við tækjumst á hendur lagfæringar á vegakerfinu á Íslandi með því sem ég hef viljað leyfa mér að kalla varanlegar framtíðarlausnir. Þá er ég m.a. að tala um jarðgangagerð. Í einhverjum fyrirspurnatíma um daginn var tekin svolítil syrpa þar sem menn ræddu um hin og þessi jarðgöng fram og til baka. Við megum heldur ekki gleyma því að fyrir nokkrum árum var búin til jarðgangaáætlun — ég vitnaði reyndar í hana áðan — en síðan kom út skýrsla 2001 um mögulegar jarðgangaleiðir á Íslandi og hvaða kostir fylgdu þeim.

Ég vék að því áðan að því miður hefðum við Íslendingar alltaf lent í dauðum tímabilum. Við tökum fyrir ein eða tvenn jarðgöng og þegar við erum búin með þau leggjumst við ofan í einhverja allsherjargleði og gleymum að halda áfram. Þannig hefur þetta verið. Þannig var þetta eftir Vestfjarðagöng og Hvalfjarðargöng, það gerðist ekkert í jarðgangagerð í mörg ár.

Síðan var tekist á við Fáskrúðsfjarðargöng og Almannaskarð. Þeim framkvæmdum er báðum að ljúka en við erum ekki komin í útboð á næstu framkvæmd, sem ætti auðvitað að vera ef vel væri að verki staðið, við ættum alltaf að vera með a.m.k. ein jarðgöng undir sem verið væri að vinna í. Ef við stæðum vel að verki varðandi jarðgangagerð ættum við að vera að bjóða út jarðgöng þegar við sæjum að farið væri að halla á seinni hluta á einhverju verki. Tillaga okkar í Frjálslynda flokknum hefur gengið út á það, við höfum lagt til þingsályktunartillögu sem ekki hefur komið enn þá til umræðu um að menn setjist yfir jarðgangamálin á nýjan leik og búi til áætlun um það hvernig standa eigi að því að gera þau jarðgöng hér á landi sem við á annað borð teljum að sé hagkvæmt að gera og teljum eðlilegt að verði fylgt eftir.

Ég hef alla vega komist að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að gera u.þ.b. 80 km af jarðgöngum til að koma þjóðvegakerfinu að mestu leyti á láglendisvegi og tengja saman byggðir sem teldust eðlilegar og góðar framkvæmdir og varanlegar lausnir.

Ég held, hæstv. forseti, að við eigum að fara í þá vinnu að skipuleggja hvernig við viljum standa að jarðgangagerð á komandi árum og áratugum. Við hljótum að geta markað þeim framkvæmdum einhvern sérstakan bás og gert ráð fyrir 2–2,5 milljörðum á hverju ári í jarðgangagerð, þannig að við séum að vinna að einhverri markvissri áætlun um að leysa varanlega samgöngur á milli svæða sem við teljum að leysa þurfi með jarðgangagerð.

Annar þáttur sem ég hef oft vikið að í máli mínu og ætla að gera líka núna er að stytta akstursleiðir m.a. með þverun fjarða. Sem betur fer höfum við gert nokkuð í því. Við búum að þverun Gilsfjarðar og nýlega er búið að þvera Kolgrafarfjörð. Við búum að þverun Dýrafjarðar fyrir vestan. Allt hefur þetta orðið til þess að stytta vegalengdir og gera umferðina öruggari og hægt hefur verið að halda uppi vetrarsamgöngum yfir svæði sem ella hefðu ekki verið þægileg til vetrarumferðar. Ég held að við eigum að halda áfram að gera þetta þar sem við teljum það samrýmast öllum eðlilegum sjónarmiðum eins og því að við getum líka gert framkvæmdir án þess að raska mikið náttúrunni. Öllum framkvæmdum fylgir auðvitað eitthvert rask, en þetta eigum við að geta gert á skynsamlegan hátt.

Ég nefni stundum umræðuna sem varð um þverun Gilsfjarðar, sem ég kalla stundum „rauðbrystingaumræðuna“ þegar menn fóru í ægileg mótmæli yfir því að það mætti ekki þvera Gilsfjörð vegna þess að þar með væru rauðbrystingarnir í stórkostlegri hættu í hvert skipti sem þeir kæmu hér á vorin og haustin á ferðalögum sínum vestur um. Sem betur fer reyndist sú spá ekki vera á rökum reist og fuglarnir fljúga auðvitað vor og haust sínar farfuglaleiðir, koma við hér á landi eftir sem áður og er ekki sjáanlegt að þverun Gilsfjarðar hafi á nokkurn hátt eyðilagt flug þeirra, farfuglaleiðir né ætismöguleika. Þá sjaldan maður gefur sér tíma til að stoppa á brúnni í Dýrafirði, — því það er ekki beint þægilegt að stoppa þar, hún er einbreið, því er nú verr, en það má stoppa áður en maður fer inn á hana — þá er hvergi meira fuglalíf en einmitt við brúna í Dýrafirði. Sú aðgerð varð því ekki til þess að skemma náttúruna eða gera búsvæði fuglanna verri en áður, frekar á hinn veginn. Þetta nefni ég sem dæmi vegna þess að mér finnst oft að menn séu ansi fastir í því að allar vegaframkvæmdir séu það hættulegar að þær raski svo miklu í ríki náttúrunnar. Ég tel það ekki vera, hæstv. forseti.

Ég tel að gera verði virkilegt átak á vegunum á Vestfjörðum og það verði að flýta þar framkvæmdum. Það verður auðvitað ekki gert nema ná í nýtt fé, úr því menn voru svo vitlausir að skera niður vegaféð með því að draga saman fjárveitingar. Ég mun alla vega reyna að vinna að því þegar við afgreiðum fjárlög næst að fá meira fé í vegaframkvæmdir. Það á ekki bara við um Vestfirði, það eru fleiri staðir og fleiri vegaframkvæmdir í okkar kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, sem þarf að huga að. Ég nefni t.d. nýja brú í Hrútafirði sem ég held að geti orðið ágætis samgöngubót fyrir Norðvesturland. Ég ætla ekki að fara að telja upp hverja framkvæmdina á fætur annarri, en það er algjörlega ljóst að okkur mun ekki takast að vinna betur og markvissar að samgöngumálum nema fá til þess aukið fé. Þá umræðu tók ég í haust í umræðu um fjárlögin að við værum að gera rangt og það væru mistök að skera vegafé svo niður sem ráðgert var.

Ég hef einnig áhyggjur af því, hæstv. forseti, að þegar við aukum ríkisframlagið um 4,5 milljarða á árinu 2007 og síðan 2008 og förum að bjóða út af meiri krafti að við munum fá dýrari tilboð en við hefðum fengið ef við hefðum haldið áfram að bjóða út verk, því að þó menn séu að tala um einhver þensluáhrif hér á landi nú um stundir hafa tilboðin sem Vegagerðin hefur fengið verið afar hagstæð og ekki þurft að draga úr framkvæmdum þess vegna. Hins vegar kynni að vera að þegar við setjum þetta út í þessum pökkum misjafnt á milli ára fengjum við ekki eins hagstæð tilboð í þá verkþætti sem við værum að bjóða út þegar við værum að bjóða út fleiri verk í einu og þau kannski dreifð vítt og breitt um landið.

Víða á vegakerfinu eru einbreiðar brýr sem þarf að vinna sérstaklega í að fækka og takast á við. Það eru jafnvel krappar beygjur að sumum þeirra og þær eru því miður talsverðar og miklar slysagildrur.

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi fyrir stuttu, þann 1. maí, að keyra austur á Hornafjörð. Það var afar ánægjuleg ferð að keyra á teppalögðum vegi 457 km frá Reykjavík til Hornafjarðar og þurfa aldrei út á möl að fara og aðkeyrslan að öllum brúm á þeirri leið nánast bein og greið. Það má vissulega gleðjast yfir því vegakerfi sem er þar á aðalþjóðvegi landsins, þó ég hafi ekki haft tíma til þess að skoða mikið af hliðarvegum á ferð minni. Ég segi alveg eins og er að ef menn byggju við þetta annars staðar á landinu að geta rennt á slíkum brautum held ég að menn væru ekki að kvarta svo hávært á Vestfjörðum sem raun ber vitni, enda væri ekki ástæða til.

Hæstv. forseti. Ég held að það verði ekki hjá því komist að takast á við að lagfæra verstu þjóðvegi okkar. Því miður eru sennilega verstu vegirnir á Vestfjörðum í Norðvesturkjördæmi. Eftir að þungaflutningarnir komu á vegina er það staðreynd að vegirnir þola ekki flutningana.

Við höfum auðvitað fengið fjöldamörg bréf frá öllum sveitarstjórnum og fullt af hagsmunasamtökum í kjördæmi okkar, Norðvesturkjördæmi. Ég ætla að vitna í eitt bréf að lokum frá Ísafjarðarbæ, þar sem þeir tala um fjármunina í vegaframkvæmdum. Þeir segja, með leyfi forseta:

„Ljóst er að 300 milljónir kr. vantar til viðbótar fyrir árin 2005 og 2006 í nýrri tillögu að samgönguáætlun vegna framkvæmda í Ísafjarðardjúpi til að staðið sé við áætlun 2003–2006 eins og hún var samþykkt á sínum tíma.

Það virðast orðin hefðbundin vinnubrögð við endurskoðun samgönguáætlunar að skera fyrri tvö árin niður en vera með meira fjármagn síðari tvö árin sem aftur eru skorin niður við tveggja ára endurskoðun samgönguáætlunar.“

Þetta er lýsing Ísafjarðarbæjar á samgönguáætluninni. Það vill svo til að sömu flokkar stjórna Ísafjarðarbæ og eru í ríkisstjórn. Hér senda þeir flokksfélögum sínum afar skýr skilaboð. Ef menn geta ekki fallist á þá skýringu sem ég gaf áðan um að menn gæfu loforðin fyrir kosningar og drægju svo allt til baka eftir kosningar held ég þeir ættu líka að skamma bæjarstjórnina á Ísafirði fyrir sömu rök.