131. löggjafarþing — 128. fundur,  10. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[03:01]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Herra forseti. Það er komið að lokum þessarar umræðu um samgönguáætlun fyrir árin 2005–2008. Nokkrir þingmenn hafa beint spurningum til mín og vil ég víkja að þeim og bæta ögn við að gefnu tilefni.

Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágætisumræður hér í kvöld og í nótt. Það er búið að taka nokkurn tíma í þessa umræðu eins og eðlilegt er því að umræður um samgöngumálin eru mjög miklar að jafnaði.

Í fyrsta lagi vil ég nefna það sem kom fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni. Hann beindi spurningum til mín um Sundabraut, reyndar ekki í fyrsta skipti. Ég get ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um hana. Hann spurði hvenær hönnun gæti hafist vegna framkvæmda við Sundabraut í Reykjavík. Svar mitt við þessari spurningu hefur margsinnis verið það að hönnun getur hafist strax og umhverfismatsferlið er búið — því er ekki lokið — og samkomulag hefur náðst milli borgarinnar og Vegagerðarinnar um hvaða leið eigi að fara. Það liggur ekki fyrir svo að ég nefni það rétt eina ferðina enn.

Hvenær getur verkið hafist? var einnig spurt. Svar mitt er það að verkið getur hafist þegar búið er að verkhanna og bjóða verkið út. Það er talið geta orðið á árinu 2007 sem verkið yrði boðið út.

Í þriðja lagi vildi hv. þingmaður, sem er víðs fjarri á þessari stundu, vita um fjármögnum verksins. Það hefur verið undirstrikað margsinnis að verk af þeirri stærðargráðu sem Sundabrautin er og ég tel að þurfi að líta til í heilu lagi, alla leið upp á Kjalarnes, verður að fjármagna sérstaklega. Vísað hefur verið til þess að nýta fjármuni vegna sölu Símans til að setja það verk af stað.

Í fjórða lagi vék hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson að Suðurstrandarvegi og hafði stór orð um að ekki hefði verið staðið við gefin fyrirheit. Það er skemmst frá því að segja að um áramótin 2004/2005 voru til fjárveitingar vegna þessa verkefnis, Suðurstrandarvegar, upp á 385 millj. kr. Þá hafði verið greiddur nokkur kostnaður, ríflega 30 milljónir, vegna undirbúnings en þarna voru uppsafnaðar fjárveitingar vegna þessa verks. Síðan var tekin ákvörðun um það af hálfu þingmanna Suðurkjördæmis í samstarfi við mig sem samgönguráðherra og Vegagerðina að færa til framkvæmda vegna hringvegar um Kristnitökuhraun 140 millj. kr. þannig að til ráðstöfunar eru 245 milljónir í það verk sem búið er að bjóða út og er í gangi núna frá Grindavík og áfram þaðan í austur. Síðan er gert ráð fyrir framkvæmdum Þorlákshafnarmegin þannig að í öllum atriðum hefur verið staðið við þau fyrirheit sem voru gefin með þeim fjárveitingum sem settar voru í þetta verk um Suðurstrandarveg. Ég vísa algerlega til föðurhúsanna öllum þeim stóryrðum sem fram komu af hálfu þingmannsins og vísa til þessara talna sem ég nefndi.

Út af fyrir sig mætti segja margt um þá tillögu sem hv. þm. Gunnar Birgisson hefur borið upp. Það er þó aðeins eitt atriði sem ég vil nefna, þá tillögu hv. þm. Gunnars Birgissonar að taka fjárveitingar vegna framkvæmda við Þingeyrarflugvöll og færa annað. Unnið hefur verið að undirbúningi framkvæmda við lengingu Þingeyrarflugvallar að undangenginni mikilli athugun og rannsókn. Það hefur verið gert á grundvelli þeirrar samgönguáætlunar sem er í gildi og hefur verið samþykkt. Það verk hefur verið boðið út. Það skýtur aldeilis skökku við að upp skuli koma tillaga um að fella niður þær framkvæmdir þegar búið er að bjóða út, verk sem sett er af stað með fullkomlega eðlilegum hætti á grundvelli gildandi áætlunar. Ég hlýt að vekja athygli á þessu við umræðuna þó að fáir séu til þess að hlusta á þann kafla ræðu minnar.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson vék nokkrum orðum að því að samgönguráðherra legði sig fram um að standa í deilum við borgaryfirvöld. Ég hlýt að vísa þessu algerlega til föðurhúsanna. Ráðherrar hafa engan áhuga á að standa í deilum, fjarri því, en það blasir við öllum sem vilja, nema e.t.v. hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, að auðvitað hafa staðið deilur um Reykjavíkurflugvöll, það er ekkert nýtt. Hvers vegna? Jú, það er vegna þess að borgaryfirvöld hafa snúið þar við blaðinu eftir að hafa veitt heimild til þess að endurbyggja flugvöllinn. Þess vegna hafa deilurnar sprottið upp. Með sama hætti snúast þær deilur um framkvæmdir við mislæg gatnamót á mörkum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Það þekkja hv. þingmenn. Það á ekki að þurfa að koma neinum á óvart þótt það kunni að kastast í kekki milli aðila þegar um slíkt er að ræða.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir fór nokkrum orðum um umferðaröryggismál. og ég þakka þá ræðu þingmannsins. Hún spurðist fyrir um framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum. Ég vísa bara til þess sem kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni á bls. 123 þar sem er tíundað í mörgum liðum hvaða aðgerðir það eru sem við gerum ráð fyrir að fara í á sviði umferðaröryggismála á næstu fjórum árum. Það er skýrt skilgreint hvaða kostnaður liggur þar að baki. Hann er áætlaður upp á 1,5 milljarða. Hér er brotið í blað á sviði umferðaröryggismála og ég vona að af því verði sá árangur sem að er stefnt.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara ofan í fleiri þætti í ræðum hv. þingmanna sem hér hafa flutt ræður í kvöld þó að ærið tilefni væri svo sem til þess. Ég vil síðan bara að lokum þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir mjög málefnalega ræðu sem hann flutti í kvöld. Fyrst og síðast þakka ég hv. samgöngunefnd fyrir mjög gott samstarf við mig sem samgönguráðherra og starfsfólk ráðuneytisins og þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni, formanni samgöngunefndar, fyrir vel unnið verk og góðan árangur í því starfi sem unnið hefur verið á vettvangi nefndarinnar.