131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Börn og unglingar með átröskun.

661. mál
[10:31]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra um börn og unglinga með átröskun. Átröskun, þ.e. lystarstol eða lotugræðgi, er sjúkdómur sem getur þróast í mjög alvarlegan sjúkdóm og banvænan þegar hann er hvað erfiðastur. Átröskun er alvarlegur sjúkdómur sem virðist vera að greinast nú í auknum mæli, bæði hjá fullorðnum og börnum sem er ný þróun og því mikilvægt að taka á. Sjúkdómurinn er algengari hjá stúlkum en piltum og greinist aðallega á unglingsárum og fram yfir tvítugt en er þekktur í öllum aldurshópum. Þar sem sjúkdómurinn getur þróast upp í mjög alvarlegan og lífshættulegan sjúkdóm, er langvinnur og meðferðin erfið er mjög mikilvægt að grípa eins fljótt inn í og mögulegt er, greina sjúkdóminn á frumstigi og koma sem allra fyrst inn með stuðning og ráðgjöf til foreldra barna og til barnanna sjálfra. Eins til að hafa áhrif á umhverfi barnanna og það áreiti sem þau verða fyrir og veita allan þann stuðning sem hægt er. Því beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

1. Hvað hefur verið gert til að stuðla að því að átröskun barna og unglinga sé greind snemma?

2. Hvaða þjónusta stendur þessum einstaklingum og fjölskyldum þeirra til boða?

3. Hvernig hefur fjöldi þeirra sem greinast með átröskun þróast undanfarin 20 ár í aldurshópunum: a. 5–10 ára, b. 11–15 ára, c. 16–25 ára?

4. Hyggst ráðherra beita sér fyrir aukinni þjónustu við börn með átröskun með tilliti til þróunar undanfarinna ára, t.d. með því að koma á fót sérhæfðri deild á barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss?

5. Hyggst ráðherra beita sér fyrir eflingu fagteymis sérstakrar dag- og göngudeildar á Landspítala – háskólasjúkrahúsi?

Á Landspítalanum hefur nýlega verið opnuð göngudeildarþjónusta fyrir fullorðna sem er mjög til bóta en þar hefur hæstv. ráðherra gefið fyrirheit um aukna þjónustu og nú kalla ég eftir svörum hvað líði þeim fyrirheitum og hvort vænta megi úrbóta á þessu sviði.