131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Börn og unglingar með átröskun.

661. mál
[10:34]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Átraskanir barna og unglinga hafa frá upphafi verið meðhöndlaðar á barna- og unglingageðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss, bæði á göngu- og legudeildum. Árið 2002 tóku nokkrir meðferðaraðilar sig saman og mynduðu þverfaglegt teymi til að sinna þessum hópi sérstaklega vegna vísbendinga um vaxandi tíðni átraskana. Frá þeim tíma hefur tilvísunum verið haldið skipulega saman en nákvæmar upplýsingar fyrir þann tíma liggja ekki fyrir. Samkvæmt upplýsingum frá geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss var fjöldi alvarlegra átraskana hjá börnum fram til ársins 2000 1–3 sjúklingar á ári. Nú eru að jafnaði 3–4 sjúklingar meðhöndlaðir á deildum BUGL árið um kring. Átröskunarteymið hefur lagt áherslu á að beita sér fyrir snemmgreiningu á átröskunum meðal barna og unglinga. Þessar rannsóknir gefa til kynna að batahorfur aukist því fyrr sem sjúkdómurinn greinist.

Eftirfarandi leiðir hafa verið farnar til að stuðla að því að átröskun barna og unglinga greinist fyrr en áður: Staðið hefur verið fyrir kynningu til heilsugæslu og skólakerfis um aðgengi að BUGL. Átröskunarteymið hefur sinnt fræðslu, ráðgjöf og stuðningi við lækna og hjúkrunarfræðinga sem starfa við heilsugæslu og skóla. Einnig hefur komið til fræðsla í fjölmiðlum og annars staðar. Samvinna hefur verið við Spegilinn, samtök aðstandenda átröskunarsjúklinga og áhugafólks, áhersla hefur verið lögð á símenntun teymismeðlima með þátttöku þeirra í námskeiðum og ráðstefnum. Að beiðni minni hefur verið unnið að gerð klínískra leiðbeininga um átraskanir í samvinnu við átraskanateymi sem starfar á fullorðinsgeðdeildum og við landlæknisembættið. Tekin var sú ákvörðun í samræmi við átröskunarteymin og landlæknisembættið að beina fræðslu um átraskanir fyrst og fremst til fullorðinna og fagfólks en ekki til barna og ungmenna nema það hafi tengsl við holla lífshætti.

Spurt er hvaða þjónusta standi þessum einstaklingum til boða, þ.e. börnum og unglingum með átraskanir og fjölskyldum þeirra.

Á BUGL hefur greining og meðferð þessara einstaklinga verið komin í ákveðinn farveg. Einstaklingum er beint markvisst að heilsugæslustöð eða til barnalækna og stundum næringarráðgjafa þegar um fyrsta mat eða meðferð er að ræða. Þannig er reynt að sporna við því að mál sem geta fengið farsæla afgreiðslu á öðrum þjónustustigum berist inn til BUGL. Sú meðferð sem fer fram innan deildar er einstaklingsmiðuð, en meðal annars er boðið upp á einstaklingsmeðferð, eftirlit læknis, foreldraviðtöl, stundum fjölskyldumeðferð, iðjuþjálfun, hópmeðferð, umhverfismeðferð og fleira.

Hv. þingmaður spyr einnig hvernig fjöldi þeirra sem greinast með átröskun hafi þróast undanfarin 20 ár í aldurshópunum 5–10 ára, 11–15 ára og 16–25 ára. Eins og fram kom í upphafi máls míns var fyrst farið að halda skipulega saman fjölda tilvísana vegna átraskana barna og unglinga árið 2002 þannig að þróun síðustu 20 ára liggur ekki fyrir. Árið 2002 voru 16 tilvísanir á BUGL og voru börnin á aldrinum 14, 15 og 16 ára. Árið 2003 voru 17 tilvísanir vegna barna á aldrinum 13–17 ára og árið 2004 voru 24 tilvísanir á BUGL vegna barna á aldrinum 11–17 ára. Meðalaldur þeirra var 14,5 ár.

Það sem af er þessu ári eru tilvísanir orðnar sjö vegna barna á aldrinum 14–17 ára Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem unnar eru úr sjúkrasögu spítalans 1983–2001 kemur fram að 110 sjúklingar sem þá höfðu legið á geðdeildum sjúkrahússins voru greindir með átraskanir. Af þeim voru 103 konur og sjö karlmenn. Meðalaldur kvennanna var 23,5 ár og voru þær á aldursbilinu 8–50 ára. Meðalaldur karlanna var 27,5 ár á aldursbilinu 13–62 ára. Veruleg fjölgun hefur orðið á greiningu átraskana, einkum síðustu fimm ár þessa tímabils.

Þjónusta við börn og unglinga er í vaxandi mæli veitt á göngu- og dagdeildum. Reynt er að koma í veg fyrir innlagnir þar sem æskilegra er talið að börn dvelji í sínu eðlilega umhverfi og fái dag- og göngudeildarþjónustu eða jafnvel þjónustu heim til sín.

Þann 15. mars sl. var opnuð ný aðstaða fyrir Teig, dagdeild vímuefnameðferðar við Landspítala – háskólasjúkrahús. Breytingar sem þá urðu gerðu mönnum kleift að breyta og bæta húsnæði almennu göngudeildarinnar og innrétta aðstöðu fyrir átröskunarsjúklinga sem þurfa á dagdeildarþjónustu að halda. Ég hef ákveðið að veita aukið fjármagn til þessa málaflokks sem gerir okkur m.a. kleift að ráða fleira sérþjálfað fagfólk til að sinna átröskunum af fullum metnaði. Undirbúningur er þegar hafinn á Landspítalanum til að efla dag- og göngudeildarþjónustu fyrir sjúklinga með átraskanir.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að vekja máls á þessu alvarlega efni og vona að svör mín hafi veitt upplýsingar um stöðu mála.