131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Börn og unglingar með átröskun.

661. mál
[10:39]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið, sérstaklega þó það að ég tel að svar hans megi túlka sem svo að það muni ekki dragast úr hófi að fylla þau fjögur stöðugildi sem nauðsynleg eru til að hafa fast meðferðarteymi á göngudeildarþjónustu á geðdeild Landspítala – háskólasjúkrahúss til að sinna átröskunarsjúklingunum þar. Það er mjög bagalegt ef þeir sérhæfðu einstaklingar sem sinna þessari meðferð þurfa einnig að sinna öðrum verkefnum. Þetta er tímafrek og langvinn meðferð.

Þrátt fyrir það sem nú er í gangi er alveg ljóst að þeir einstaklingar sem glíma við þennan sjúkdóm og aðstandendur eiga í miklum erfiðleikum með að fá, að þeim finnst, viðhlítandi meðferðarúrræði eða stuðning. Má m.a. merkja það af því að núna á stuttum tíma hafa komið fram félög og stuðningshópar sem reyna að sinna þessum sjúklingum. Má þar nefna Spegilinn fyrir aðstandendur, Forma, samtök átröskunarsjúklinga í bata, og Prisma sem er þverfagleg miðstöð fyrir þá sem glíma við átröskun.

Er þetta af hinu góða og ég hvet hæstv. ráðherra til að styðja mjög vel við bakið á þessum stuðningshópum sem eru nauðsynlegir til hliðar við hið opinbera kerfi. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. ráðherra að hann fylgist vel með þróun á barna- og unglingageðdeildinni og verði þá tilbúinn (Forseti hringir.) með meira fjármagn ef til þess þyrfti að koma að það yrði sérstök dagdeild sem sinnti eingöngu þessum sjúklingum.