131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

755. mál
[10:54]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýr svör. Það er merkilegt sem kom fram að það hefur staðið á því hjá sveitarfélögunum að skila inn gögnum. Það er afar mikilvægt mál að þessi mál gangi sem hraðast. Það eru gífurlegir hagsmunir í húfi fyrir byggingaraðila, sveitarfélögin og þá sem kæra. Ég er mjög ánægður með að heyra að afgreiðslutími, sem var að meðaltali slagandi upp í tvö ár fyrir nokkrum árum, það hefur verið ríflega svo árið 2003, sé núna kominn niður í 6,3 mánuði. Það er spurning hvort ekki sé ástæða til að átak, með því að sérstakur starfsmaður var settur þarna inn, haldi áfram og þetta þurrkist upp. Ég spyr kannski út af því að til stendur að afgreiða lög um mat á umhverfisáhrifum þar sem þetta fylgir með, breytingar á skipulags- og byggingarlögum. Þar er afgreiðslutími, ef ég man rétt, ákveðinn þrír mánuðir sem er kannski skammur tími ef maður hugsar um alla þá sem þurfa að skila gögnum í málum sem koma að þessu.

En það er óafsakanlegt sem gerst hefur hjá borginni, að þeir skili ekki gögnum í málunum fyrr en eftir dúk og disk. Síðan kvarta menn undan afgreiðslutíma í nefndinni. Ég hef fulla samúð með nefndinni í þeim málum.

Ég vil enn og aftur þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr og góð svör í þessu máli.