131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.

755. mál
[10:56]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir ágæta umræðu um þetta mál sem ég tek svo sannarlega undir, að það er nauðsynlegt að þetta sé í eins góðu lagi og unnt er. Það er mikilvægt að ekki þurfi að bíða lengi eftir úrskurðum af þessu tagi.

Ég nefndi í máli mínu áðan að til greina kæmi að setja í lög ákveðinn frest gagnvart sveitarfélögunum til að skila inn gögnum svo nefndin geti unnið úr þeim málum sem berast til hennar og vísaði þá til fordæmis, t.d. varðandi yfirskattanefnd. Við munum skoða það í umhverfisráðuneytinu að gera slíka breytingu á lögunum.

Ég vil líka geta þess að yfir stendur endurskoðun á skipulags- og byggingarlögum sem væntanlega verður lokið fyrir haustið. Væntanlega gefst tækifæri til að skoða þessi atriði í tengslum við það mál.