131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Skuldbindingar vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga.

730. mál
[11:06]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er með fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra varðandi skuldbindingar vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga. Fyrirspurnin er eftirfarandi:

Er skylt samkvæmt sveitarstjórnarlögum að sýna skuldbindingar (eignar- eða rekstrarleigu) vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga? Ef ekki, hver er þá ástæða þess?

Ég hef fengið skriflegt svar við fyrirspurn minni varðandi núvirtar skuldbindingar sveitarfélaga og þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör en ég spyr af ástæðum. Þessir samningar geta verið með mismunandi hætti og í ársreikningum sveitarfélaga er þessa getið einungis í athugasemdum og þá spyr maður: Hvernig getur félagsmálaráðuneytið þá fylgst með fjárreiðum sveitarfélaganna ef þessa er einungis getið í athugasemdum og varla aðgengilegt að neinu marki?

Talað er um eignar- eða rekstrarleigu. Það eru kannski tvenns konar atriði í því. Menn taka tölvur eða minni tæki sem hafa mjög stuttan líftíma á rekstrarleigu sem getur verið 3–5 ár og síðan er samningunum lokið, eða hins vegar húsnæði sem getur verið í einkaframkvæmd og tekið á rekstrarleigu til 25 ára og eftir þann tíma á sveitarfélagið ekki húsið eða það getur líka verið valkostur að samningurinn sé til 10 ára, 15 ára eða 25 ára og sveitarfélagið getur þá haft kaupréttartilboð á eigninni. En því miður held ég að það sé í mörgum tilfellum svo að í þessum einkaframkvæmdum eða eignar- eða rekstrarleigum sé þetta ekki tilfellið heldur séu menn að taka þetta á leigu til langs tíma án uppsagnarákvæðis og án þess að hafa kauprétt á viðkomandi eign. Þetta eru greiðslur sem hlaupa ekki frá sveitarfélögunum þannig að ef tekjur sveitarfélagsins minnka, skatttekjur minnka eða eitthvað annað slíkt þá minnka þessar greiðslur ekki. Þetta er því mjög alvarlegt mál. Menn verða að hafa þetta alveg á kláru. Vonandi verður alltaf gósentíð í landinu eins og hefur verið núna undanfarin tíu ár. En það gæti einhvern tíma harðnað á dalnum og þá er þetta alvarlegt mál fyrir sveitarfélögin að vera bundin í klafa og báða skó í þessum málum en þau verða að geta staðið þetta af sér. Þess vegna er fyrirspurninni varpað til hæstv. ráðherra.