131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Skuldbindingar vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga.

730. mál
[11:13]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn því að þetta er mjög alvarlegt mál. Eftirlitsnefnd með fjárreiðum sveitarfélaga ætti í rauninni að kanna slíkar skuldbindingar því ég sé engan mun á því hvort sveitarfélagið tekur lán og lofar að borga af láninu og kaupa fyrir það ákveðna fasteign eða hvort það gerir kaupsamning eða samning um að greiða ákveðna upphæð á hverju einasta ári í kannski 20–30 ár af þessari sömu fasteign. Það er enginn munur þarna á og enginn eðlismunur. Þetta eru hvort tveggja skuldbinding á sveitarfélagið og þetta er dæmi um agaleysi ef þetta er ekki fært í reikningana sem slíkt, ekki bara sem skýring. Við megum ekki skattleggja börnin okkar með því að búa til einhverjar skuldbindingar sem ekki koma fram í ársreikningum sveitarfélaganna. Þetta er mjög mikilvægt og ég vil að eftirlitsnefnd sveitarfélaganna kanni það sérstaklega hvernig slíkum skuldbindingum er háttað hjá sveitarfélögunum og þau séu metin nákvæmlega eins og aðrar skuldbindingar, eins og önnur lán sem sveitarfélagið tekur.