131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Skuldbindingar vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga.

730. mál
[11:14]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera fram þessa fyrirspurn. Það er full ástæða til og ég er sannfærður um að mikið vantar á að öll kurl séu komin til grafar hvað varðar þessa hluti hjá sveitarfélögunum. Ég vek athygli á því að í svari sem hv. þm. Gunnar Birgisson fékk frá hæstv. ráðherra kemur fram að það séu einungis þrjú sveitarfélög í landinu sem hafi verið með einhverjar verulegar skuldbindingar á þessum grunni á árinu 2003. Svona er þetta ekki. Við vitum að miklu fleiri sveitarfélög hafa notfært sér reglur af þessu tagi og ég held að full ástæða sé til að menn fylgi þessu eftir.

Sveitarstjórnarmenn eru kosnir til fjögurra ára og það er mjög nauðsynlegt að menn viti nákvæmlega hvernig þeir fara með skuldbindingar sveitarfélaga á því tímabili sem þeir sitja þannig að kjósendur geti glöggvað sig á því hvernig þeir hafi staðið sig.