131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Skuldbindingar vegna einkaframkvæmda í ársreikningum sveitarfélaga.

730. mál
[11:16]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Jafnframt tek ég undir með hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Jóhanni Ársælssyni.

Það er mjög mikilvægt að menn geti glöggvað sig á því hvaða skuldbindingar eru í gangi hjá sveitarfélögunum. Það er allt annað að menn séu með tölvur á rekstrarleigu til 3–5 ára eða íbúðarhúsnæði á eignarleigu til 25 ára og hafa ekki forkaupsrétt að mannvirkjum. Það er allt annað. Það eru skuldbindingar til framtíðar, skuldbindingar unga fólksins í sveitarfélögunum, kjósendur. Íbúar þessara sveitarfélaga hafa rétt á því að vita nákvæmlega hvernig staðan er.

Þetta skriflega sem ég fékk frá hæstv. félagsmálaráðherra var við spurningunni: Hverjar voru skuldbindingar sveitarfélaga vegna einkaframkvæmda (eignar- eða rekstrarleigu) á núvirði um síðustu áramót, sundurliðað eftir sveitarfélögum?

Svo maður taki aftur 2003 er þessi listi mjög skrýtinn, finnst mér, ég held að hann sé ekki réttur. Sum sveitarfélög hafa alls ekki sett þetta inn í reikningana hjá sér og ekki í athugasemdir. Þetta er nákvæmlega rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, þetta á að koma inn í skuldastöðu sveitarfélagsins. Þetta eru raunverulegar skuldir sveitarfélagsins, peningalegar skuldbindingar til framtíðar. Það er ekki eitthvað sem á að vera í athugasemdum innan sviga. Ég held að félagsmálaráðuneytið verði að fara ofan í þetta og sveitarfélögin sjálf til að glöggva sig betur á þessu máli. Ég þakka hins vegar enn og aftur hæstv. félagsmálaráðherra fyrir greinargóð svör í þessu máli.