131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Fjárhagsstaða meðlagsgreiðenda.

759. mál
[11:26]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn séu vakandi yfir því hvar séu göt í velferðarkerfinu. Ég tel að það sé ákveðið gat í velferðarkerfinu þar sem um er að ræða atvinnuleysisbætur til þeirra sem greiða meðlag með börnum. Segjum að maður greiði meðlag með þrem börnum — það er yfirleitt karlmaður — og þá fær hann 4 þús. kr. með hverju barni í atvinnuleysisbætur en hann þarf að borga 16 þús. kr. í meðlag. Hann er þá í mínus upp á 12 þús. kr. fyrir hvert barn. Segjum að hann sé með 90 þús. kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði, þá þarf hann að borga 45 þús. kr. á mánuði í meðlög og þá sitja eftir fyrir hann sjálfan 45 þús. kr. til að lifa af og til að taka á móti börnunum sínum aðra hverja helgi. Það segir sig náttúrlega sjálft að á þessu getur hann ekki lifað.

Síðan er ákveðinn vítahringur sem myndast þegar menn skulda meðlög. Fyrst eru tekin 75% af tekjum upp í skattskuldir og restin fer oft upp í meðlög þannig að menn komast bara ekki til þess að vinna. Ég er mjög ánægður með þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að rjúfa þennan vítahring.