131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Fjárhagsstaða meðlagsgreiðenda.

759. mál
[11:29]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að hérna er mál sem þarf að skoða gaumgæfilega. Mjög hátt hlutfall er í vanskilum varðandi meðlögin og þetta er hópur sem talar um að það sé mjög erfitt að standa í skilum. Við sjáum varðandi félagsþjónustu sveitarfélaga að það er ansi stór hópur þessara aðila sem þarf á talsverðri hjálp að halda. Ég tek undir það sem kom fram hjá m.a. hv. þm. Pétri Blöndal að hugsanlega er um gat að ræða í velferðarkerfinu og fagna ég því sem kom fram hjá ráðherra að það er alveg ljóst að mjög grannt þarf að fylgjast með þessum hópi. Maður hefur tilhneigingu til að álykta að við höfum skoðað mjög sterkt stöðu einstæðra mæðra en við höfum svolítið gleymt þessum hópi. Ég tel að þetta þurfi að skoða betur.