131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Fjárhagsstaða meðlagsgreiðenda.

759. mál
[11:33]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Mér finnst hv. þingmenn kannski missa sjónar á a.m.k. af sumu af því sem skiptir máli í þessu efni þ.e. að 40%, eins og fram kom í máli mínu áðan, þeirra sem eru á vanskilaskrá með samning við Innheimtustofnun eru smám saman að saxa á skuldir sínar. Það skiptir miklu máli og segir okkur að þau úrræði sem gripið var til 1996 og hafa verið við lýði síðan virka.

Vissulega er það alvarlegt, hæstv. forseti, og ég dreg ekki fjöður yfir það, að svo stór hópur meðlagsgreiðenda skuli vera í skuld við Innheimtustofnun sveitarfélaga. En það sem skiptir fyrst og fremst máli, hæstv. forseti, hlýtur að vera að gera það sem stofnunin getur til að koma til móts við þessa skuldara þannig að þeir geti staðið skil á þeim greiðslum sem þeim eru ætlaðar.

Ég trúi því ekki, hæstv. forseti, að þeir hv. þingmenn sem hér hafa tekið til máls leggi til að slegið verði striki yfir þessar skuldir, holt og bolt. Það getur ekki verið. Við hljótum fyrst og fremst að leita leiða til að koma til móts við þarfir þessara skuldara. Það getur Innheimtustofnun gert. Það hefur hún verið að gera, sem sést m.a. á því eins og áður er getið, að um 40% þeirra sem eru á vanskilaskrá hafa gert samninga við stofnunina.

Eftir því sem ég best veit, hæstv. forseti, eru dæmi þess að menn séu að greiða þessar skuldir sínar í áratugi. Það er auðvitað mjög alvarlegt. En það er samt sem áður þannig að þessi skylda hvílir á herðum meðlagsgreiðenda. Undan henni verður í sjálfu sér ekki vikist. Eins og ég gat um áðan munum við að sjálfsögðu fylgjast áfram með þessu máli. Ég tek undir að það er mjög alvarlegt þegar nærri 100% þeirra sem greiða eiga með börnum sem orðin eru eldri en 18 ára eru í vanskilum. Þá er eitthvað að. En það er kannski ekki fyrst og fremst hjá stofnuninni heldur ekki síður þeim sem greiða eiga skuldirnar. Við þurfum að koma til móts við þarfir þeirra og erum að því að stærstum hluta.