131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Stuðningur við búvöruframleiðslu.

733. mál
[11:39]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hvert er viðhorf ráðherra til þess að bændur skuli telja hagkvæmt að standa utan styrkjakerfis landbúnaðarins og framleiða osta fyrir innanlandsmarkað?“

Það er einfalt að segja til um að hver og einn á rétt á að meta hagsmuni sína eins og þeir standa hverju sinni. Bændur eru engin undantekning í þeim efnum. Frelsi til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa er stjórnarskrárvarinn réttur þegna þessa lands og verður sá réttur einungis takmarkaður með lögum ef almannahagsmunir krefjast þess. Búvörulög fela ekki í sér slíka takmörkun og því ríkir að mínu viti ekkert bann við framleiðslu á ostum utan greiðslumarkskerfis laganna.

Hitt er ljóst að þeir sem eru í búvörusamningi og nýta sér hann hafa auðvitað réttindi og skyldur samningsins. Þeim ber að fara eftir búvörusamningnum. Ég minni hv. þingmann á að hér var samþykktur nýr búvörusamningur með öllum greiddum atkvæðum á þinginu í fyrra en fjórir sátu hjá. Stefna Alþingis í málinu var ljós, að samningurinn sem bændur höfðu gert, kúabændur við ríkisvaldið, hafði góðan stuðning í þinginu.

Ég tel að það sé ekki almennt mat bænda að það sé hagkvæmt að standa utan við hið opinbera beingreiðslukerfi. En það virðist vera mat forsvarsmanna Mjólku að framleiðsla fyrirtækisins eigi sér rekstrargrundvöll við þær aðstæður. Nú á það allt eftir að koma í ljós og vonandi gengur því fólki vel í sínum verkefnum og hugsjónum. Þáttur beingreiðslna hefur verið 47,1% af grundvallarverði mjólkur. Forsvarsmenn Mjólku telja sig ekki þurfa á því að halda miðað við þær forsendur sem þeir gefa sér en ég óska þeim velfarnaðar í störfum þeirra.

Þróunin í mjólkurframleiðslu hefur verið mikil og hröð hin síðari ár. Bú hafa stækkað á sama tíma og mjólkurinnleggjendum hefur fækkað. Þó er meðalbúið, íslenska kúabúið, ekki nema 130 þús. lítrar þannig að þau eru almennt ekki stór. Örfá bú fara yfir 300 þús. lítra framleiðslu og séu þau stærri þá koma margir einstaklingar að þeim rekstri.

Ég hef fyrir mitt leyti varað við þróun á markaðsverði greiðslumarks og haft nokkrar áhyggjur af aukinni skuldsetningu kúabúa. Nefnd sem ég skipaði með fulltrúum ríkis, bænda og aðilum vinnumarkaðarins, við undirbúning nýs mjólkursamnings, áréttaði í skýrslu sinni í febrúar 2004 að þar lægi veikleiki í gildandi fyrirkomulagi mjólkurframleiðslunnar. Kostirnir lægju hins vegar m.a. í jafnvægi milli framleiðslu og neyslu, að beingreiðslur til bænda nýttust til lækkunar á verði mjólkurvöru til neytenda og þeirri staðreynd að kerfið og skipulag þess skapaði forsendur fyrir hagræðingu og bættri samkeppnishæfni í greininni.

Auðvitað þurfa kúabændur að gæta að því að fjárfestingar þeirra vegna kaupa á greiðslumarki og endurnýjun á vélum og fjósum stuðli að viðhaldi þessara kosta, atvinnugreininni og neytendum til hagsbóta. Um það urðu nefndarmenn sammála, um það urðu aðilar vinnumarkaðarins sammála sem komu að þessu máli, svo ég nefni dæmi.

Hyggst ráðherra setja greiðslumark? spyr hv. þingmaður. Eins og þekkt er hef ég verið talsmaður fjölskyldubúskapar, ekki verksmiðjubúskapar. Sá samningur sem taka mun gildi í haust, um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar til næstu sjö ára, felur þó ekki í sér hámark á beingreiðslum til einstakra mjólkurframleiðenda. Segja má að meginmarkmið þess samnings sé að almenn starfsskilyrði í framleiðslu og vinnslu mjólkurafurða og stuðningi ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði. Önnur markmið eru að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda. Því verður fylgt og hefur verið fylgt.

Það má geta þess að verð á mjólkurvörum hefur ekki hækkað til neytenda síðustu þrjú ár. Hafa aðrir gert slíkt í atvinnugreinum hér? Ég spyr. Bændurnir og fyrirtæki þeirra, mjólkurbúin, hafa því tekið á sig mikla hagræðingu.

Þessi samningur á líka að stuðla að kynslóðaskiptum sem þurfa ávallt að verða í hópi mjólkurframleiðenda. Hitt er svo annað mál að við blasa alþjóðlegir samningar og í núverandi mjólkursamningi er fyrirvari um að þar kunni að verða breytingar á stuðningsformi, að beingreiðslum þurfi þess vegna að breyta í styrki sem ekki eru framleiðsluhvetjandi, í svokallaða græna styrki. Auðvitað kann að koma til þess, ef þeir samningar nást á næstunni og á þessu tímabili samningsins, að ríkisvaldið og bændur þurfi að setjast niður og breyta núverandi samningi. Það er verkefni sem þarf vel að fylgjast með á næstunni.