131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Stuðningur við búvöruframleiðslu.

733. mál
[11:44]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það voru ákveðin vonbrigði að hæstv. ráðherra skyldi ekki svara því skýrar hvort hann vildi setja hámark á beingreiðslur til mjólkurframleiðslu. Hann endurtók fyrri ummæli sín um að hann vildi frekar sjá fjölskyldubú en verksmiðjubú. Hvað á hann nákvæmlega við með því? Einhvers staðar hljóta menn að setja viðmiðin og innkoma Mjólku á markaðinn hlýtur að vekja spurningar um hvort kerfið sé að ganga sér til húðar. Er það markmið stjórnvalda að niðurgreiða hreinan verksmiðjubúskap og hvert er eðlilegt hámark á beingreiðslum? eins og hv. fyrirspyrjandi spurði. Hæstv. ráðherra hlýtur að svara til um hvar sé eðlilegt að draga línuna. Auk þess hljótum við að stefna að því að um verði að ræða byggðatengdan stuðning sem væri almennur frekar en framleiðslutengdan stuðning við stórfelldan verksmiðjubúskap.

Hæstv. ráðherra hlýtur að þurfa að svara því. Hvar á að draga línuna, hvar á að draga mörkin? Hans er að setja þau viðmið.