131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Stuðningur við búvöruframleiðslu.

733. mál
[11:46]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svörin þó ég hefði viljað hafa þau ögn skýrari. Ég vil taka undir góðar óskir til þess félags sem tekur þá afstöðu að standa fyrir utan þetta kerfi, kerfi sem ég tel að hafi gengið sér til húðar. Ég hef fulla trú á því að þetta fyrirtæki eigi framtíð fyrir sér. Menn hafa þann kostinn að velja t.d. þá leið að kaupa til sín greiðslumark á mjög háu verði eða standa fyrir utan kerfið. Ég hef þá trú á þeim sem fara í þennan rekstur að þeir hafi metið þetta út frá hagkvæmni. Hér kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann hefði áhyggjur af verði mjólkurkvótans eða greiðslumarksins. En það kom ekki fram að hann vildi setja hámark á hvað hver og einn framleiðandi gæti framleitt. En ef hann gerði það væri mögulegt að hafa áhrif á verðið. Ég skora því á hæstv. landbúnaðarráðherra að íhuga það að ef hann setti hámark á beingreiðslur til einstakra búa þá mundi það án nokkurs efa í mínum huga leiða til þess að verð á greiðslumarki mundi fara lækkandi. Ef hæstv. ráðherra hefur svo miklar áhyggjur þá tel ég að hann ætti einmitt að líta til þess þáttar.

Ég átta mig ekki á þessu. Hæstv. ráðherra segist vera fylgjandi fjölskyldubúum. Gott og vel, hann er fylgjandi þeim. Hvað þýðir það? Þýðir það eitthvað? Er það bara í orði eða er það eitthvað á borði? Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra útskýri það hvernig sú stefna komi fram á borði, en hún kemur oft fram í orði.