131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Merkingar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu.

753. mál
[11:55]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er eiginlega að verða siður frekar en undantekning hjá hv. þingmanni að þegar hann ber fram fyrirspurnir ræðir hann um hin ýmsu málefni önnur en þau sem eru í fyrirspurninni sem hann er að bera fram. (SigurjÞ: Nú, hvað?) En það er sjálfsagt að svara fyrirspurninni sem er í fjórum liðum. Fyrsta spurningin er svohljóðandi:

„Hvaða merkingar hafa verið stundaðar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu frá árinu 1995? Hve mikið hefur verið merkt í hverju merkingarverkefni, hverjar eru niðurstöður þeirra verkefna sem lokið er og hverjar eru endurheimtur til dagsins í dag í verkefnum sem enn standa yfir?“

Á tímabilinu 1995–2004 hafa eftirtaldar merkingar verið gerðar: Á þorski, kynþroska, á tímabilinu 1995–2004 17.470 og endurheimtur hafa verið 19,5%. Það voru slöngumerki. Á þorski, kynþroska, 1995–2004, 2.210 einstaklingar, 450 merki endurheimt, þ.e. 20,4%, rafeindamerki. Þorskur, ókynþroska, 1995–2004, 9.799, endurheimtur 17,3%, slöngumerki. Ufsi 2000–2004, 16.897, 5,7% endurheimtur með slöngumerkjum. Ufsi á sama tímabili, 133 merki, endurheimtur 18%, rafeindamerki. Skarkoli 1997–1998, 3.664 merki, 55% endurheimtur, slöngumerki. Skarkoli 1998, 160, 76% endurheimtur með rafeindamerkjum. Grálúða 2001–2003, 2.138, 6,1% endurheimtur með slöngumerkjum.

Annar liður fyrirspurnarinnar er svohljóðandi:

„Hvaða skýrslur og ritgerðir hafa birst um merkingar frá árinu 1995 til þessa dags og hvar er hægt að nálgast þær?“

Á árinu 1995–2004 hafa alls verið birtar um 30 skýrslur og greinar þar sem stuðst er við gögn úr ofangreindum merkingum auk þriggja greina um neðansjávarmerkingar á karfa. Greinarnar hafa birst í ýmsum blöðum og ritum á bæði innlendum og erlendum vettvangi. Hægt er að nálgast greinarnar á bókasafni Hafrannsóknastofnunarinnar og margvíslegan fróðleik um merkingar er einnig að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Þriðji liður er svohljóðandi:

„Er þess að vænta að niðurstöður birtist á vef Hafrannsóknastofnunarinnar í aðgengilegum gagnagrunni?“

Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að því að gera niðurstöður merkinga aðgengilegar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar og þeirri vinnu verður fram haldið og væntanlega lokið árið 2006.

Fjórði liður er svohljóðandi:

„Hvernig miðla útibú Hafrannsóknastofnunarinnar upplýsingum til sjávarútvegsins ef þau senda ekki frá sér skýrslur?“

Starfsmenn útibúa Hafrannsóknastofnunarinnar hafa á undanförnum árum skrifað ýmsar skýrslur og greinar m.a. um merkingar á ýmsum vettvangi svo sem í tímaritið Ægi, Fiskifréttir, sjómannadagsblöð og víðar. Auk þess miðla starfsmenn útibúa ýmsum upplýsingum í fyrirlestrum, á kynningarfundum og í samtölum meðal fólks á umræðusvæði útibúanna. Í skýrslu um starfsemi Hafrannsóknastofnunarinnar er árlega gerð stuttlega grein fyrir helstu verkefnum útibúa.

Eins og ég nefndi áðan fer hv. þingmaður yfirleitt vítt og breitt um sviðið þegar verið er að ræða fyrirspurnir og enn einu sinni talar hann um stöðu þorskstofnsins. Það má kannski segja að sjaldan sé of mikið rætt um stöðu þorskstofnsins. En ég hef verið að velta fyrir mér hvort hv. þingmaður geri sér grein fyrir því hvernig stofninn hefur þróast á undanförnum árum, hvort hann geri sér grein fyrir því hver hafi verið stærð veiðistofnsins miðað við skýrslu síðasta árs á síðasta ári og hver staða stofnsins var árið 1983 þegar kvótakerfið var tekið upp og hvort hann geri sér grein fyrir því hver stærð þorskstofnsins var tíu árum áður en kvótakerfið var tekið upp, þ.e. árið 1973. Það væri fróðlegt fyrir mig að heyra það hvort hann geri sér grein fyrir því hvernig þessi mál hafa þróast og kannski bæti við hvort hann geri sér grein fyrir því hver staða stofnsins var 1963, 20 árum áður en kvótakerfið var tekið upp.