131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Merkingar á þorski, ufsa, skarkola og grálúðu.

753. mál
[11:59]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það er greinilega viðkvæmt mál ef maður ræðir fiskveiðistjórn hér við hæstv. sjávarútvegsráðherra. En hvers vegna fer ég að ræða um fiskveiðistjórn út frá fiskmerkingum? Það er augljóst. Þetta tengist og ég hélt að hæstv. ráðherra ætti að gera sér grein fyrir því eftir að hafa verið í þessu ágæta ráðuneyti um árabil.

Hvort ég geri mér grein fyrir því hvernig fiskveiðistofninn var 1983 og hvernig hann er nú? Já, ég geri mér grein fyrir því. Það hefur verið hrein sorgarsaga hvernig hæstv. ráðherra og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins hefur tekist upp. Það er þannig að bæði hefur aflinn minnkað og viðmiðunarstofninn. Ég vona að hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að menn eru ekki á réttri braut og að þeir verða að ræða það hér í alvöru hvernig þeir ætla að bregðast við. Menn hafa sífellt á öllu þessu árabili verið að gefa loforð um að handan við hornið muni aflinn aukast. En hvað gerist? Við fáum enn og aftur því miður dökka skýrslu frá Hafrannsóknastofnun og nú eigum við von á skýrslu skömmu eftir að þing verður sent heim, í júní ef ég þekki það rétt. Ég vonast til þess, og ég ætla að gera það að tillögu minni, að við hefjum þing næsta haust á því að ræða þessa skýrslu Hafrannsóknastofnunar og förum vel yfir málið. Mér finnst það vera mjög þörf umræða í framhaldi af þessari umræðu um hrakfarir fiskveiðistjórnar í tíð Sjálfstæðisflokksins og ég legg til að menn skoði það í alvöru og fordómalaust hvað hafi farið úrskeiðis og hvort þeir geti í rauninni ekki farið aðrar leiðir og reynt að tala opið um hlutina.