131. löggjafarþing — 129. fundur,  10. maí 2005.

Gegnumlýsingartæki fyrir tollgæsluna.

798. mál
[12:10]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svör hans. Ég held að við séum alveg sammála um það að vandinn er mikill og skórinn kreppir einmitt þarna að í ljósi þess eins og kom fram í upplýsingum frá hæstv. fjármálaráðherra á 131. löggjafarþingi, fyrir áramótin, þ.e. í svörum við spurningum sem ég lagði aftur fram, þá kom í ljós að árið 2003 voru 147 þúsund gámaeiningar fluttar inn og skoðaðir voru um 1.400 gámar. Við gerum okkur alveg ljósa grein fyrir nauðsyn þess að fylgjast betur með innflutningi. Ég hef séð þessa tækni sem hæstv. fjármálaráðherra kom inn á sem menn eru farnir að beita annars staðar á Norðurlöndunum og er hún allrar athygli verð. Auðvitað kostar þetta peninga eins og fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra, 150 millj. kr. í innkaupum og 30 millj. kr. rekstrarkostnaður. Þar er vissulega um háa tölu að ræða.

Hitt er annað mál sem ég vildi aðeins beina til fjármálaráðherra. Það vakti athygli mína þegar ég lagði fram fyrirspurnir á 128. löggjafarþingi og 131. löggjafarþingi hve tollvörðum sem fylgjast með gámum hefur fjölgað geysilega á milli ára, vegna þess að í skriflegu svari sem ég fékk á 128. löggjafarþingi var mér sagt að það væru átta tollverðir af 55 sem sinntu sérstaklega gámainnflutningi og hefðu eftirlit með honum en á 131. löggjafarþingi fæ ég þær upplýsingar í skriflegu svari að í Reykjavík séu núna 34 tollverðir sem allir koma að eftirliti að innflutningi í gámum með einum eða öðrum hætti. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hefur orðið svona stórkostlegt stökk í ráðningu tollvarða eða er einhver maðkur í mysunni? Er svarið ekki rétt? Það er mjög athyglisvert að sjá hvað tollvörðunum hefur fjölgað í Reykjavík við sérstakt eftirlit við innflutning á gámum en það er bara vel.