131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[20:02]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Góðir áheyrendur. Íslendingar geta litið hreyknir um öxl þegar litið er til sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar á síðustu öld og árangurs í uppbyggingu samfélags okkar á lýðveldistímanum. Mikilvægara er þó að horfa fram á veginn og setja sér metnaðarfull markmið í upphafi nýrrar aldar. Mælistikur þess markmiðs eru margar, en einfaldur samnefnari þeirra allra er gegnheilt velferðarsamfélag þar sem blómstrandi atvinnulíf er hornsteinn lífsgæða og tækifæra allra landsmanna.

Allar viðmiðanir alþjóðastofnana staðfesta að Ísland er meðal ríkustu og framsæknustu þjóða. Hér er hagvöxtur með því sem best gerist í hinum vestræna heimi og félagslegt öryggi sömuleiðis í fremstu röð. Okkur Íslendingum hefur tekist vel að spila úr spilum okkar. Það hefur gerst vegna traustrar og farsællar forustu stjórnarflokkanna og þeirra umbreytinga sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir í löggjöf og í uppbyggingu innviða samfélagsins.

Það hefur verið ævintýri líkast að fylgjast með þróun í íslensku efnahagslífi í kjölfar einkavæðingar ríkisfyrirtækja og ber þar sérstaklega að líta til einkavæðingar ríkisbankanna. Útrás íslensku bankanna á erlenda markaði hefur verið kröftug og bæði fjárhagslegur styrkur þeirra og aukin þekking hafa nýst öðrum íslenskum fyrirtækjum vel. Samhliða hefur þjónusta íslenska fjármálageirans gagnvart einstaklingum tekið miklum breytingum á skömmum tíma og fyrirtæki á íslenskum markaði búa einnig við gjörbreyttar aðstæður á fjármálasviðinu. Erlendir fjölmiðlar hafa fylgst grannt með útrás íslenska atvinnulífsins að undanförnu og gjarnan spyrt eldmóðinn og árangurinn sem náðst hefur við víkingablóðið sem renni í æðum Íslendinga. Vafalaust er þar um mikla einföldun að ræða, en hitt er ljóst að við verðum að búa íslenskum viðskiptavíkingum okkar tíma það umhverfi að afl þeirra og framtak njóti sín einnig í þágu þjóðarinnar.

Lækkun skatta er hluti af þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að búa fyrirtækjum eins góðar aðstæður hér á landi og nokkur kostur er. Án öflugra fyrirtækja verður allt tal um öflugt velferðarkerfi hjóm eitt. Um leið og slíkt umhverfi hefur verið skapað, hefur stöðug og traust efnahagsstjórn tryggt lánshæfismat Íslands og er með því besta sem gerist og sparar það eitt milljarða vaxtagreiðslur á ári sem er afskaplega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga.

Áhrif sjávarútvegs í íslensku þjóðfélagi hafa verið að minnka, ekki vegna þess að umfangið hafi verið að minnka, heldur vegna þess að aðrar atvinnugreinar hafa verið að sækja í sig veðrið. Kakan er að stækka. Það eru fleiri egg í körfunni hjá þjóðinni. Ferðaþjónustan hefur verið á mikilli siglingu. Stóriðjan hefur verið að eflast til muna. Fjarskipta- og hátæknifyrirtæki sækja í sig veðrið og fjármálafyrirtækin eru orðin að öflugum alþjóðlegum fyrirtækjum.

Ferðaþjónustan er sú grein atvinnulífsins sem hefur tekið hvað mest stökk fram á við. Vöxtur ferðaþjónustunnar er ævintýri líkastur, ekki síst þegar litið er til þess að ferðalög hafa dregist saman í heiminum eftir hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001. Okkur hefur tekist með samstilltu átaki stjórnvalda og atvinnugreinarinnar að standa þannig að landkynningu og markaðsmálum ferðaþjónustunnar að hún hefur eflst til muna og fátt bendir til annars en að sóknarfæri ferðaþjónustunnar á komandi árum eigi enn eftir að aukast. Straumur ferðamanna til landsins vex óðfluga og samhliða hafa íslenskir flugrekendur blásið til mikillar sóknar í starfsemi sinni á erlendum vettvangi.

Uppbygging öflugra fjarskiptafyrirtækja er ein mesta byggðaaðgerð fyrr og síðar vegna upplýsingasamfélagsins. Fjarskiptin skapa mikla möguleika til viðskipta og fjarnáms og jafna til muna aðstöðu þeirra sem búa í dreifbýlinu miðað við þá sem búa í þéttbýlinu.

Á yfirstandandi þingi hefur verið til umfjöllunar þingsályktunartillaga um stefnu stjórnvalda í fjarskiptamálum og frumvarp til breytinga á lögum um fjarskipti. Hvað gagnrýni á nótum persónuverndar varðar er því til að svara að tæknibylting undanfarandi ára á sviði fjarskipta hefur því miður haft ákveðnar skuggahliðar í för með sér. Nýjar leiðir hafa opnast til glæpsamlegrar iðju í skjóli nafnleyndar og fjarskiptatæknin er meðal annars nýtt til eiturlyfjasölu og dreifingar barnakláms. Það er óhjákvæmilegt að stöðugt öflugri tækni sem m.a. býður upp á misnotkun af þessu tagi kalli á öflugri eftirlitsúrræði. Fjarskiptalögin taka engu að síður fullt tillit til persónuverndarsjónarmiða og eðlilegrar milligöngu dómstóla þegar til rannsóknarmála kemur annars vegar.

Við Íslendingar ætlum okkur að vera í fremstu röð þeirra þjóða sem veita öfluga fjarskiptaþjónustu og nýta upplýsingatæknina til framfara og framþróunar í atvinnulífinu. Öflug fjarskipti um allt land er auk þess liður í þeim ásetningi ríkisstjórnarinnar að efla byggðirnar og auðvelda nýtingu auðlinda okkar til lands og til sjávar. Fjarskiptaáætlun leggur grunninn að enn frekari sókn okkar í fjarskiptamálum. Með markmiðum fjarskiptaáætlunar munum við Íslendingar skipa okkur í fremstu röð þjóða sem nýta sér upplýsingatæknina og sömuleiðis munum við með stórbættum háhraðatengingum um landið allt, þéttingu GSM-þjónustu og uppbyggingu stafrænna sjónvarpssendinga ásamt fleiru, skipa okkur í fremstu röð þjóða hvað fjarskiptaþjónustu varðar. Það munum við gera samhliða sölu Símans.

Góðar samgöngur eru mikilvægar fyrir alla landsmenn og eru mikilvægur þáttur í að efla Ísland sem áfangastað ferðamanna. Með þeirri samgönguáætlun sem hér er til lokaafgreiðslu á þinginu er lögð áhersla á að bættar samgöngur nýtist sem flestum. Við verðum að hafa það í huga hvers vegna við byggjum upp vegakerfið. Fyrst og fremst er það vegna þess að við verðum að tryggja flutning í þágu auðlindanýtingar, hvort sem er vegna sjávarafurða, stóriðju, ferðaþjónustu eða til þess að tryggja ferðir einstaklinga til og frá vinnu í þéttbýlinu, jafnframt sem í dreifbýlinu. Í þessu samhengi verðum við jafnframt að muna að allar endurbætur á vegakerfinu eru í þágu umferðaröryggis hjá okkur.

Það er skylda stjórnmálamanna að horfa til langrar framtíðar. Það er líka skylda stjórnmálamanna að standa við gefin fyrirheit. Það er útilokað í mínum huga að bjóða út verk á borð við Sundabraut sem borgaryfirvöld eiga enn eftir að ákveða hvar eigi að liggja. Það er líka útilokað í mínum huga að svíkja þau loforð sem stjórnvöld hafa fyrir löngu gefið um gerð Héðinsfjarðarganga og er ég sannfærður um að bæði arðsemi þeirra og mikilvægi þeirra fyrir atvinnulífið og ferðaþjónustuna birtist þegar til lengri tíma er litið.

Við heyrum af og fylgjumst með fréttum af góðri afkomu fyrirtækja sem nýta það öfluga umhverfi frjálsra viðskipta sem hér hefur verið mótað. Jafnframt heyrum við af vaxandi kröfum um menntun starfsmanna sem eru í samkeppni alþjóðlegs viðskiptaumhverfis. Það er því óhjákvæmilegt að nýta bættan hag okkar til að efla menntastofnanir. Það er fjárfesting í bjartri framtíð okkar unga fólks. Við megum ekki vera hrædd við að sækja fjármuni inn í menntakerfið með varfærnum skólagjöldum eða aðkomu fyrirtækja eða hagsmunaaðila. Skólagjöld vegna framhaldsnáms þurfa ekki að vinna gegn jafnrétti til náms. Við verðum að leita þeirra leiða sem færar eru til þess að setja íslenska háskóla í fremstu röð.

Með eflingu stóriðju, bættum og hagkvæmari samgöngum, vaxandi ferðaþjónustu, nýrri starfsemi á sviði viðskipta og bankastarfsemi höfum við verið að byggja nýjar öflugar undirstöður undir velferðarkerfið. Við erum fámenn þjóð í landi mikilla tækifæra. Við hljótum því að leita allra leiða til þess að skapa öllum vinnandi höndum störf við hæfi. Íslenskt samfélag þarf á öllu sínu atgervi að halda. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að standa þannig að málum að það afl sem í hverjum einstaklingi býr sé nýtt af fremsta megni. Menntun unga fólksins og tækifæri þeirra sem komnir eru á vinnumarkaðinn til símenntunar er ekki síður mikilvægt. Í okkur öllum býr þörf fyrir lífsgæði þar sem færni okkar til verðmætaskapandi vinnu er einn af lykilþáttum. Jafnframt því að tryggja öryggisnet samfélagsins fyrir þá sem höllum fæti standa, verðum við að búa við vinnuhvetjandi umhverfi þar sem hæfileikar hvers og eins fá notið sín.

Ágætu áheyrendur. Með stöðugleika í efnahagsmálum, sátt á vinnumarkaði og góðri umgjörð um íslenskt atvinnulíf tryggjum við undirstöður velferðarsamfélags í fremstu röð. Sóknarfærin eru fjölmörg og það er sameiginlegt verkefni stjórnvalda, atvinnulífs og landsmanna allra að nýta þau til fulls. — Góðar stundir og gleðilegt sumar.