131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[20:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Það eru þreyttir og lúnir ráðherrar sem við horfum á hér í dag. Það dylst engum. Ríkisstjórnin er afundin og úrill. Flokkarnir reka sífellt hornin hvor í annan og ekkert eimir eftir af jákvæðu yfirbragði sambúðaráranna en hún hangir saman á valdinu, ríkisstjórnin, eins og drukknandi maður á bjarghring. Neistinn sem einkenndi fyrsta ráðuneyti Davíðs Oddssonar er löngu slokknaður. Þá fóru jafnaðarmenn fyrir breytingum á efnahags- og viðskiptalífi og EES-samningnum sem skilaði okkur nútímalegu viðskiptaumhverfi, ómetanlegum möguleikum og stöðugleika. Ný tækifæri og áður óþekkt starfsskilyrði voru leyst úr læðingi og atvinnulífið fékk kraftmikla vítamínsprautu. Frelsi til athafna hér heima leiddi síðan til útrásar og fyrirtækjareksturs í mörgum löndum Evrópu.

Búið er að kasta fyrir róða því víðtæka samráði við verkalýðshreyfinguna sem fól í sér þjóðarsáttarsamningana árið 1990 og kjarasamningana á 10. áratugnum sem höfðu að markmiði að viðhalda stöðugleika. Þá samdi verkalýðshreyfingin um hagstjórnina, um aðgerðir í velferðarmálum og opinberar framkvæmdir til að halda uppi atvinnustiginu þó að það kostaði fórnir og hægt vaxandi kaupmátt. Þessi stefna skilaði árangri og stór þáttur verkalýðshreyfingarinnar gleymist of oft. Þessar aðgerðir og uppsveifla á heimsmarkaði eftir 1995 gáfu ágætan hagvöxt og hóflega vaxandi kaupmátt vinnandi fólks. Upp frá þeim tíma hófst ójöfnuður í tekjuskiptingu eins og sjá má í upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu um ráðstöfunartekjur fjölskyldna. Það voru ekki síst lífeyrisþegarnir, eldri borgarar, öryrkjar og atvinnulaust fólk sem sat eftir í góðærinu.

Þegar ríkisstjórnin náði að endurnýja umboð sitt árið 1999 var samráð við verkalýðshreyfinguna að mestu aflagt. Nú er ágreiningur um kjarastefnuna, ágreiningur um skattamálin og ágreiningur um velferðarmálin.

Ný tegund samfélags hefur þróast hér á Íslandi með yfirstétt sem einkennist af ofurlaunum og yfirlæti. Á sama tíma búa 4.500 börn í fjölskyldum sem þurfa að leita sér aðstoðar. Um 10 þús. aldraðir eru með tekjur undir 110 þús. kr. á mánuði. Fátækt hefur verið að festast í sessi meðal ákveðinna hópa í allsnægtaþjóðfélagi okkar. Á því ber þessi ríkisstjórn ábyrgð. Skattbyrðin jókst. Skatttekjurnar fóru í fyrsta sinn í 40% af landsframleiðslunni og skattahækkun varð ein sú mesta sem mæld varð hjá Efnahags- og framfarastofnuninni á árunum 1995–2002. Skattaprósentan var lækkuð, það er alveg rétt, það var kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins, en skattleysismörkin sömuleiðis. Þess vegna jókst skattbyrðin mest hjá láglauna- og millitekjufólki meðan hátekjufólkið naut góðs af breytingunum. Davíð Oddsson var skattakóngur Íslands fyrr og síðar.

Á sama tíma hafa sveitarfélögin tekið að sér þýðingarmikil verkefni án viðunandi tekjustofna. Þau sitja eftir með sárt ennið. Landsbyggðin dregst aftur úr í tekjum og atvinnuháttabreytingum. Þetta hefur mikil áhrif á lífsgæði og möguleika fólks sem býr úti á landi. Engin breyting er í sjónmáli þó að Framsóknarflokkurinn hafi yfirtekið forsætisráðuneytið. Ríkisstjórnin virðist vanhæf um að skjóta stoðum undir fjölbreytta atvinnustefnu í landinu því að hún er orðin föst í viðjum virkjana og stóriðjustefnu.

Hefur ríkisstjórnin ástæðu til að hreykja sér af tíu ára stjórnartíð sinni? Það er stór spurning. Nei, hún er orðin sjálfri sér sundurþykk og í hverju málinu á fætur öðru hafa forustumennirnir tungur tvær og tala sitt með hvorri. Þessi ríkisstjórn er ólýðræðisleg, ráðrík og hefur misfarið með vald. Ég nefni Íraksmálið, eftirlaunamálið, fjölmiðlamálið, kvótadóma, öryrkjadóminn, já og Mannréttindaskrifstofuna og Samkeppnisstofnunina. Skilaboðin eru öll á einn veg; það erum við sem förum með völdin. Þeir hafa völdin. Þeir ráða.

Meðan ríkisstjórnin hefur hugsað um það eitt að tryggja valdastöðu sína hefur jafnaðarmönnum vaxið ásmegin. Eftir að jafnaðarmenn sameinuðust í einum flokki hefur orðið til breiðfylking fólks með nýja sýn á samfélagið og stjórnmálin. Samfylkingin nær til fólks sem hrífst af hugsjón jafnaðarstefnunnar og skynjar að hér hefur orðið til nýtt stjórnmálaafl sem á erindi við samtíð sína. Hún nær til fólks sem vill öðruvísi stjórnarhætti og alvörulýðræði sem stuðlar að réttlátara samfélagi í stað valdstjórnar og misskiptingar.

Góðir landsmenn. Það eru tvö ár til kosninga. Á komandi missirum mun Samfylkingin eflast enn og verða sterkur boðberi um breytingar. Hún þarf á stuðningi ykkar að halda til að verða það framsækna afl sem nær inn í Stjórnarráðið. Það mun koma í hlut jafnaðarmanna að leita á ný eftir víðtækri sátt um hagstjórn, skapa forsendur fyrir fjölbreyttu atvinnulífi um allt land og beita sér fyrir öflugu samráði eins og annars staðar á Norðurlöndunum. Það verður hlutverk Samfylkingarinnar að styðja ungt fólk til dáða og nýta tækifærin sem felast í mannauði og frumkvæði, aflið sem leysir úr læðingi sköpunarkraft og áræði með íslenskri þjóð.

Ég þakka þeim sem hlýddu.