131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[21:04]

Siv Friðleifsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar.

Langstærstu málin sem farið hafa í gegnum þingið í vetur eru ein mikilvægustu kosningaloforð Framsóknarflokksins, en það eru skattalækkanir og hækkanir barnabóta til að styrkja stöðu barnafjölskyldna. Ríkisstjórnarflokkarnir telja eðlilegt að fólkið í landinu hafi aukið svigrúm til að ráðstafa sjálft í hvað það vill setja peningana sem það fær fyrir vinnuna sína á sama tíma og við viljum verja velferðarkerfið. Stjórnarandstaðan hefur tortryggt skattalækkanirnar og verið meira eða minna á móti þeim. Svigrúm til að lækka skattana og styrkja fjölskyldurnar skapaðist vegna kjarks og þrautseigju ríkisstjórnarflokkanna m.a. við að koma á nýju stóriðjuverkefni og vegna þess að ríkishömlum var aflétt af atvinnulífinu m.a. í bankakerfinu. Þetta eru mál sem vinstri flokkarnir hafa meira eða minna verið á móti.

Ein af forsendum nýrrar stóriðju var íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni, ákvæði sem tryggir svigrúm svo við getum framleitt vistvæna orku til stórra verkefna. Þessu sjálfsagða ákvæði voru vinstri flokkarnir, Samfylkingin og Vinstri grænir, alfarið á móti. Formaður Samfylkingarinnar sagði m.a. að ákvæðið yrði hlegið út af borðinu í alþjóðasamfélaginu. Varaformaður Samfylkingarinnar sagðist styðja stóriðjuverkefnið með hnút í maganum, eins og það var orðað þá, enda var Samfylkingin sundruð í því máli. Þetta var kjarkurinn á Samfylkingarbænum. Vinstri grænir voru auðvitað alfarið á móti, gallharðir í því eins og í flestu öðru.

Af hverju er þetta rifjað upp hér? Jú, þessi saga segir okkur að það skiptir máli hverjir stjórna. Það skiptir máli að stjórnmálaflokkarnir hafi kjark og þrautseigju. Þann kjark og þrautseigju hafa ríkisstjórnarflokkarnir sýnt. Þeir sjá hlutina í góðum fókus. Við sjáum ekki allt í svörtu eins og stjórnarandstaðan.

Þrátt fyrir að vel gangi í íslensku samfélagi um þessar mundir eru margar áskoranir framundan. Margar þeirra eru á sviði heilbrigðismála og jafnréttismála. Heilbrigðisþjónustan á Íslandi er afar góð sama á hvaða mælikvarða litið er. Framsóknarflokkurinn hefur stýrt þeim málaflokki um langt skeið og getur verið stoltur af. Nýjar áskoranir eru m.a. þessar: Hvernig ætlum við t.d. að byggja upp nýtt hátæknisjúkrahús á Íslandi, eina stærstu framkvæmd sem ráðist verður í á næstunni, verkefni sem kostar 36 milljarða og mun hafa geysilega mikil áhrif á framþróun og gæði í heilbrigðismálum þjóðarinnar? Hvernig á að takast á við offituvandann sem líkja má við faraldur í hinum vestræna heimi? Hvernig komum við á skynsamlegri matarvenjum og aukinni hreyfingu og líkamsrækt hjá þegnunum? Hvernig ætlum við að stemma stigu við þá stórfjölgun öryrkja sem orðið hefur á síðustu árum? Svörin við öllum þessum spurningum eru flókin og vandasöm. Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur boðað að hann muni vinna í þessum verkefnum á næstunni og til þess mun hann hljóta góðan stuðning okkar þingmanna.

Í vetur höfum við rætt um jafnréttismál bæði í þinginu og í þjóðfélaginu. Í Gallup könnun sem gerð var fyrir nokkru kom fram að milli 80–90% aðspurðra töldu stöðu karla vera betri en stöðu kvenna í samfélaginu. Margt hefur þó verið vel gert, svo sem að koma á fæðingarorlofi feðra, en því var komið á undir forustu fyrrum félagsmálaráðherra og jafnréttisráðherra, Páls Péturssonar. Launamunur kynjanna er enn hrópandi konum í óhag. Við verðum að taka á honum með öllum tiltækum ráðum. Við eigum að sýna konum það réttlæti að borga þeim sömu laun og karlarnir fá fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Á næsta ári eru sveitarstjórnarkosningar og því stutt í að stjórnmálaflokkarnir raði upp á framboðslistana. Konur og karlar eiga að taka sameiginlegar ákvarðanir í stjórnmálum. Þar með aukast líkurnar á að ákvarðanirnar séu teknar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Í síðustu alþingiskosningum varð alvarlegt bakslag í hlut kvenna á Alþingi. Þeim fækkaði. Eigum við að horfa upp á fækkun kvenna í sveitarstjórnum eins og við horfðum upp á fækkun kvenna á Alþingi í síðustu alþingiskosningum? Nei, stjórnmálaflokkarnir verða að taka sér tak, ná konum til starfa, hleypa konunum að. Það þarf vilja innan stjórnmálaflokkanna til að efla konur og þar skipta auðvitað forustusætin langmestu máli.

Virðulegur forseti. Hér hefur stjórnarandstaðan notað mikinn tíma í að ráðast að stjórnarflokkunum og spila gömlu úreltu plötuna, gamla sönginn um að stjórnarflokkarnir séu að beita hinum svokallaða flokkspólitíska hæl á ýmsar stofnanir og þær hafa verið nefndar hér. Það er ekki hægt að sitja þegjandi undir þessu. Það er alrangt m.a. sem hér hefur komið fram um Samkeppnisstofnun að þar sé verið að beita einhverjum flokkspólitískum hæl. Hið rétta er — og það virðist vera sama hvað það er oft sagt — að það er verið að efla sjálfstæði Samkeppniseftirlitsins nýja. Það er verið efla sjálfstæði þess og auka samkeppniseftirlit. Störfin fara úr tíu upp í 17. Það verður 60 millj. kr. aukakostnaður. Hér er því verið að efla eftirlitið. Það kemur úr hörðustu átt að hlusta á formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, tala um þessi mál. Nú nýlega kom grein í Morgunblaðinu undir forskriftinni Valdníðsla eða eðlileg embættisfærsla. Þar er einmitt lýst því hvernig hv. þm. Össur Skarphéðinsson beitti valdníðslu þegar hann flutti veiðistjóraembættið norður til Akureyrar. (Gripið fram í.) Þeir sem hafa áhuga á því geta lesið það. (Gripið fram í.) Þá hringdi hann í veiðistjóraembættið og hótaði að færa það út á land, sem hann síðar gerði. (Gripið fram í.) Þetta kemur því úr hörðustu átt.