131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[21:22]

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Undanfarinn rúman áratug hafa íslensk stjórnmál að verulegu leyti snúist um hvaða verkefni eigi að tilheyra ríkinu og hvaða verkefni séu þess eðlis að þau eigi betur heima hjá einkaaðilum. Stefna síðustu ríkisstjórna undir forustu Sjálfstæðisflokksins hefur í þessu efni verið skýr og orðum hafa fylgt athafnir. Síðan 1992 hefur ríkið selt eignarhluti sína í 34 félögum fyrir 55 milljarða. Þessum fjármunum hefur verið varið til að lækka skuldir ríkissjóðs og til framfaraverkefna innan lands. Ég geri ráð fyrir að þeir séu fáir sem telja að það fari betur á því í dag að ríkið væri eignar- eða rekstraraðili að prentsmiðju, skipafélagi, útgerðarfélagi eða banka, svo fáein dæmi séu tekin af starfsemi sem nú hefur verið falin einkaaðilum. Enn færri létu sér detta í hug að ríkið færi að hefja starfsemi af þessu tagi.

En hingað koma menn upp í kvöld og halda því blákalt fram að stjórnvöld hafi á umliðnum árum verið að hrifsa til sín völd sem þeim hafi ekki verið falin, taka til sín völd sem þau hafi ekki umboð fyrir og misfari síðan með. Þegar betur er að gáð kemur í ljós að stjórnvöld hafa einmitt verið að gefa frá sér völd. Hvað eru mörg ár síðan það þótti sjálfsagt að fulltrúar stjórnmálaflokkanna ættu sæti í stjórnum ríkisbanka? Það eru örfá missiri síðan. Þetta er fráleit hugsun í dag. Staðreyndin er sú að á umliðnum árum, umliðnum áratug eða svo, hafa stjórnvöld verið að gefa frá sér völd sem hafa haft veruleg áhrif í þessu samhengi, sama hvað menn koma hingað upp og fara með um þau efni.

Stærsta einkavæðingarverkefni ríkisins hingað til er á lokastigi en það er sala Símans. Áætlað söluverðmæti Símans jafngildir samanlögðu söluverðmæti í öllum einkavæðingarverkefnum ríkisins hingað til. Það sýnir vel hve miklir hagsmunir eru í húfi fyrir ríkissjóð og almenning. Virðingarvert er að við framkvæmd einkavæðingarinnar sé lögð megináhersla á að ríkissjóður fái hæsta mögulega verð fyrir fyrirtækið, hins vegar er spurning hvort ákjósanlegra hefði verið ef almenningi hefði verið tryggður möguleiki á því að taka þátt í einkavæðingarferlinu með beinum hætti frá upphafi. Sala Símans mun losa um almannafé sem nýta má í þágu risavaxinna verkefna sem ekki verða kostuð af reglulegum tekjum ríkissjóðs. Dæmi um verkefni sem nefnd hafa verið til sögunnar og til álita koma í þessu samhengi eru verkefni á borð við lagningu Sundabrautar og nýs hátæknisjúkrahúss.

Góðir Íslendingar. Að lokinni sölu Símans má segja að ákveðin vatnaskil verði í því verkefni sem ráðist var í fyrir um einum og hálfum áratug, að draga úr umsvifum ríkisins í atvinnurekstri, draga úr umsvifum ríkisins í atvinnulífi Íslendinga. Með því er ekki sagt að nema skuli staðar því að víða er ástæða til að endurskoða þátttöku ríkisins í atvinnufyrirtækjum eða þjónustu þess við almenning. Það á til að mynda við á lánamarkaði fyrir íbúðarhúsnæði. Hins vegar er ljóst að eftir sölu Símans verður stærstu og mest aðkallandi einkavæðingarverkefnunum lokið. Þessar áherslur ásamt ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum og samstilltu átaki á vinnumarkaði hafa skilað ótrúlegum árangri í efnahagslegu tilliti fyrir okkur Íslendinga, miklum hagvexti, lægri skattbyrði fyrir einstaklinga og fyrirtæki, auknum kaupmætti og framrás og vexti íslenskra fyrirtækja á öllum sviðum. Með einkavæðingunni hafa verið leystir úr læðingi kraftar sem áður voru heftir í eignarhaldi ríkisins. Þeir sem halda því fram að sama þróun hefði getað átt sér stað með óbreyttri aðild ríkisins eru einfaldlega á villigötum.

Á vettvangi stjórnmálanna verður í framtíðinni ekki með sama hætti og hingað til tekist á um hvaða verkefnum ríki og sveitarfélög eigi að sinna heldur frekar hvernig og með hvers konar fyrirkomulagi það skuli gert. Þetta á til að mynda við í menntamálum og heilbrigðismálum. Þau skref til nýbreytni á háskólastiginu sem nú þegar hafa verið stigin sýna svo ekki verður um villst að kostir einkarekstrarins þurfi að komast víðar að hjá hinu opinbera. Með breytingum á lögum um háskóla höfum við á fáum árum séð hvernig öflugar menntastofnanir hafa orðið til, skapað ný tækifæri, aukið fjölbreytni í námi, stuðlað að fjölgun háskólanema og betri menntun í landinu. Með framsæknum hugmyndum og breytingum á fleiri sviðum er hægt að sækja fram til enn betra mannlífs á Íslandi. Þær breytingar sem orðið hafa á efnahag þjóðarinnar hafa leitt til þess að unnt er að verja meiri fjármunum en nokkru sinni fyrr til velferðarmála. Með samstarfi ríkis og einkaaðila á fleiri sviðum velferðarmála en nú er er hægt að tryggja betri nýtingu fjármagns og aukna þjónustu án þess að létta þurfi ábyrgð á viðkomandi málaflokkum af ríkisvaldinu.

Góðir tilheyrendur. Framtíð okkar er björt. Óvíða í veröldinni eru jafnmiklir uppgangstímar og við lifum nú. (Forseti hringir.) Við höfum í hendi okkar tækifæri til að renna enn traustari stoðum undir þá góðu stöðu sem við nú búum við. — Ég óska ykkur gleðilegs sumars.