131. löggjafarþing — 130. fundur,  10. maí 2005.

Almennar stjórnmálaumræður.

[21:39]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur.

Í 60 ár hefur að mestu verið friður í heimshluta okkar. Valdstjórnir réðu samt mörgum ríkjum í skjóli hers og vopna allt fram til síðustu aldamóta. Lýðræðið er þjóðunum sem nýverið hafa fengið það mjög dýrmætt. Andúð í garð fyrri valdhafa gufar hins vegar ekki upp en hatur fyrnist með endurnýjun kynslóðanna. Friður með þjóðum er dýrmætur og það þarf vilja og ásetning þjóða sem byggja á lýðræði til að viðhalda honum. Þjóðfélög þurfa oft að líta inn á við til að viðhalda og virða lýðræðið.

Tilhneiging valdhafa sem lengi sitja við völd verður ósjálfrátt að þeir telja aðra sem hafa öndverðar skoðanir vera til vandræða og óþarfi að gera neitt með málflutning þeirra og rök.

Hversu oft heyrum við þetta ekki, m.a. á Alþingi eða í viðtölum við þá sem völdin hafa? Hvernig vinnur svo Alþingi í raun? Eru það lýðræðisleg og réttlát vinnubrögð sem felast í því að stjórnarandstaðan fær nánast aldrei að koma fram neinum málum, málum sem eru endurflutt þing eftir þing. Málum sem sumir stjórnarþingmenn viðurkenna að séu mjög til bóta en ráðherravaldið stoppar.

Á þessu þingi hafa 55 þingmannafrumvörp frosið í nefndum og 30 bíða ennþá 1. umr., alls 85 frumvörp. Einnig bíða til umræðu 64 þingmannatillögur. Í nefnd hefur verið vísað 62. Alls eru þetta 126 tillögur. Hvað sýnir þetta? Virkar lýðræðið eins og ásættanlegt er? Er þetta þingræði meirihlutans? Það sýna jú verkin.

Er á Íslandi stjórnbundið þing núna síðustu áratugi? Virkar þingræðið á Íslandi? Svar mitt við því er nei. Það virkar ekki. Ráðstjórn á Alþingi eða ráðherraræði, ef áfram heldur óbreytt, mun veikja og grafa undan lýðræðisvenjum okkar.

Góðir áheyrendur. Til skýringa skal ég nefna nokkur mál sem þingmenn Frjálslynda flokksins hafa flutt og snúa að bættum hag fólks, mál sem í sjálfu sér ættu varla að skiptast eftir flokkslínum og snerta ákveðna þjóðfélagshópa.

Fyrst nefni ég textun sjónvarpsefnis sem ætlað er að bæta hag þeirra sem eru heyrnarskertir eða heyrnarlausir, að þeir njóti þeirra mannréttinda að geta notið frétta og upplýsinga, fræðslu og kynningar, auglýsinga- og afþreyingarefnis til jafns við þá sem heyra. Samkvæmt upplýsingum frá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands er talið að 25 þúsund manns á landinu séu meira og minna heyrnarskertir þannig að þeir fái ekki heyrt talað mál í sjónvarpi. Auk þess mundi það koma nýbúum okkar vel ef íslenskt efni væri textað. Á Norðurlöndunum er textun innlends efnis sjálfsögð í rekstri sjónvarpsstöðva.

Næst nefni ég til mál um íslenska táknmálið flutt af Sigurlín Margréti Sigurðardóttur varaþingmanni og 16 öðrum þingmönnum úr stjórnarandstöðu. Í frumvarpi því er að finna réttindaskrá um stöðu og réttindi þeirra sem tala íslenska táknmálið, jafnframt því sem kveðið er á um að táknmál verði viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra Íslendinga og réttur þeirra tryggður til hvers konar táknmálstúlkunar. Líf heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufdumbra mun taka miklum stakkaskiptum við viðurkenningu á íslenska táknmálinu, en málið er fast í nefnd.

Að lokum nefni ég þingsályktun um tryggan lágmarkslífeyri. Tillagan er nú flutt í fjórða sinn á yfirstandandi þingi af þeim sem hér stendur. Þar segir að bæta skuli þjóðfélagsstöðu lífeyrisþega sem fá minni lífeyri greiddan úr lífeyrissjóði sínum en 50 þús. kr. á mánuði með því að breyta bótareglum almannatrygginga þannig að lífeyrisgreiðslur undir 50 þús. kr. á mánuði skerði ekki grunnlífeyri, skerði ekki tekjutryggingu, ekki heimilisuppbót eða aðrar samsettar lágmarksbætur lífeyrisþegans. Síðan þrepaskerðing ellilífeyris upp að 100 þús. kr., en þá væri núverandi 45% skerðingarregla ríkisstjórnarinnar aftur orðin fullvirk.

Þessi þrjú velferðarmál stoppar ríkisstjórnin. Ráðherrarnir neita sínu fólki um leyfi til að taka þessi mál úr nefndum. Þannig er Alþingi stjórnað.

Umræðan um tekjutengingu og skerðingarreglur á bætur elli- og örorkulífeyrisþega hefur verið hávær og áberandi í umræðunni síðastliðna mánuði. Ráðherrar hafa jafnvel lýst því að þessi mál þurfi endurskoðunar við. Hvað kallast svona vinnubrögð í raun? Feluleikur? Tvöfeldni eða slegið úr og í? Síðan koma loforð fyrir alþingiskosningar, jafnvel handsal og myndataka. Flott „show“. Það selur. Það veiðir atkvæði.

Þessi ríkisstjórn sem lækkaði mest skatta á hátekjufólk leggur núna nýjar álögur á fólkið með lögum um raforku, sem hafa hækkað raforkuverð um á bilinu 25–35%, einkum í dreifbýli og köldum landsvæðum þar sem ekki er jarðhiti. Með skattlagningu á orkufyrirtæki verða álögur enn auknar á heimilin og nú síðast með virðisauka á olíugjald. Allt er þetta skattheimta sem ekki tekur mið af tekjum fólks. Afleiðing þessa eru auknar álögur á grunnþarfir fólks, raforkunotkun, orku til húshitunar og nú síðast á olíu á bíla landsmanna.

Allt eru þetta dæmi um áherslur ríkisstjórnarinnar sem hefur farið þá leið í skattamálum að lækka mest skatta á hátekjufólki og láta skattbyrðina bitna í auknum mæli á lágtekjumönnunum. Þess vegna er það dálítið furðulegt sem hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústsson sagði áðan, að það væri kleift að lækka skatta og bæta stöðu allra. Hvers vegna var þá ekki farin sú leið að gera það?

Góðir áheyrendur. Ég óska ykkur gleðilegs sumars við lok þessarar umræðu. Ég vona að þið gangið á guðs vegum í bjartri tíð komandi sumars. — Góðar stundir.