131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[10:33]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir gagnrýni hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar á það að umrætt mál skuli ekki vera tekið til afgreiðslu á hinu háa Alþingi. Málið var fullrætt í hv. allsherjarnefnd. Lögð var í það heilmikil vinna sem ekki er mjög algengt um þingmannamál eins og við vitum, en það var fullrætt þar. Þó að efnislegur ágreiningur sé um efni þess er ekkert því til fyrirstöðu að við göngum til atkvæða um málið, virðulegi forseti, og ég lýsi yfir furðu minni og spyr hvað veldur því að nú skyndilega eftir að þessi mikla vinna hefur verið lögð í málið í allsherjarnefnd skuli því vera ýtt út af dagskrá þingsins á síðasta degi Alþingis.

Ég mótmæli þessu. Fjöldi fólks hefur komið fyrir allsherjarnefnd til að ræða þetta mál. Fjöldi umsagna hefur borist, áskorun 15 þúsund einstaklinga hefur borist Alþingi og nefndinni um að samþykkja málið eða taka það a.m.k. til afgreiðslu. Ég mótmæli því þessum vinnubrögðum og spyr, virðulegi forseti, hvað veldur því að þetta mál er skyndilega dottið út af dagskrá þingsins eftir alla þá vinnu sem í það hefur verið lögð.