131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[10:37]

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum komin á síðasta þingdag og okkur er ljóst að ásetningur þingsins er að við getum lokið störfum okkar á þessum degi. Um það er samkomulag á milli stjórnmálaflokkanna. Það hins vegar þýðir að við erum auðvitað í þeirri stöðu að mál sem valda miklum ágreiningi, þingmannamál, eins og þau sem hér hafa verið gerð að umtalsefni, rúmast ekki innan þess ramma sem við höfum núna til að ljúka störfum þingsins.

Ég harma það auðvitað mjög að það mál sem hér hefur verið gert að umtalsefni og ég er 1. flutningsmaður að og flutningsmenn eru ásamt mér fólk úr öllum stjórnmálaflokkum, skuli ekki fá brautargengi. Ekkert mál sem ég hef hreyft á þingferli mínum hefur vakið önnur eins jákvæð og mikil viðbrögð hjá fólki sem virkilega sér að mikil þörf er á að breyta þeim óþverralögum sem núna eru í gildi. Við sjáum hrikaleg dæmi um mikið óréttlæti sem fólk verður fyrir. Í einni af þeim umsögnum sem liggja fyrir vegna þessa máls kemur fram að maður sem hafði stjórnað fyrirtæki sem varð gjaldþrota skuldaði verulegar upphæðir í vörslusköttum. Honum tókst að greiða allt nema 8 millj. rétt eftir að fyrirtækið varð gjaldþrota. En vegna þeirra laga sem núna gilda fær hann á sig 120 millj. kr. sekt. Líf hans verður aldrei samt eftir þetta.

Þetta eru þau lög sem við ætluðum að reyna að breyta. Okkur er ekki að takast það, því miður, vegna þess að ekki tókst að skapa þá samstöðu um málið sem ég hefði kosið þrátt fyrir að mjög margir hafi verið þess fýsandi og fólk úr öllum flokkum að þetta mál yrði afgreitt. Þá stöndum við einfaldlega frammi fyrir því, þeim veruleika eins og er með það mál sem hér hefur líka verið gert að umtalsefni, að um það er ágreiningur og við höfum ekki svigrúm á þessum degi til að ljúka því af. Það er í ágreiningi og það mun kalla á umræður sem við höfum því miður ekki tóm til að taka við þessar aðstæður.

Ég ætla hins vegar að lýsa því yfir, virðulegi forseti, að mitt fyrsta verk verður að flytja þetta mál að nýju. Það er fullbúið, það er fullrætt, pólitísk niðurstaða er um það í viðeigandi þingnefnd og við getum klárað málið strax í upphafi þings á næsta hausti.