131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samkeppnislög.

590. mál
[10:52]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Ég lýsi fullri ábyrgð á hendur hæstv. viðskiptaráðherra og stjórnarmeirihlutanum að ætla að lögfesta það hér að veikja Samkeppnisstofnun og draga úr sjálfstæði hennar. Samkeppnisstofnun hefur eindregið varað við breytingum sem draga úr möguleikum stofnunarinnar til að grípa til aðgerða gegn hringamyndun, samþjöppun í atvinnulífinu og yfirburðastöðu fyrirtækja á markaði.

Samkeppnisstofnun teflir fram vönduðum faglegum rökum fyrir gagnrýni sinni og segir að hér sé um að ræða ótvíræða veikingu á möguleikum samkeppnisyfirvalda til að bregðast við alvarlegum samkeppnishömlum sem stafað geta af óhæfilegri samþjöppun og skaðlegri fákeppni. Með þessari lagasetningu er verið að opna fyrir pólitíska íhlutun í samkeppniseftirlitinu, enda eru þessi lög fyrst og fremst sett til höfuðs forstöðumönnum Samkeppnisstofnunar sem væntanlega þurfa að gjalda fyrir vasklega framgöngu í olíumálinu.

Í þessari lagasetningu endurspeglast valdhrokinn og ráðherraræðið eins og við höfum séð þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður og nú, þegar Mannréttindaskrifstofan er höfð í fjársvelti af því að þessir aðilar þjóna hvorki né þóknast valdhöfum. Hér er verið að ganga erinda stóru viðskiptasamsteypnanna á kostnað hagsmuna neytenda og þjóðarheildar. Við þingmenn Samfylkingarinnar styðjum að sjálfsögðu ekki þetta frumvarp.