131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[11:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Það frumvarp sem hér á að fara að greiða atkvæði um er hreinn bastarður og sýndarmennska og ekki til þess fallið að styrkja neytendavernd í landinu. Hæstv. ráðherra hefur kastað til höndum í þessu máli og engan metnað lagt í það. Talsmaður neytenda á Íslandi er langt frá því að hafa sömu stöðu og umboðsmenn annars staðar á Norðurlöndunum sem starfa sjálfstætt, hafa sjálfstæðan fjárhag, hafa forustu um stefnumótun í neytendavernd og geta höfðað mál fyrir dómstólum í málefnum neytenda. Hér á landi fær talsmaður neytenda bara skrifborð og stól inni á Löggildingarstofu sem lengi hefur búið við fjársvelti en sú stofnun sýslar aðallega með rafmagnsöryggismál, flutningsjöfnun olíuvara og vottun faggildingarstofa.

Það fyrirkomulag sem hér er tekið upp var reynt í Danmörku og er af því slæm reynsla, mörg vandamál komu upp og var það í raun afturhvarf í neytendamálum þar í landi. Þetta er afspyrnuvont mál og ljóst að þessari ríkisstjórn er meira umhugað um umboðsmann hersins en umboðsmann neytenda.

Við þingmenn Samfylkingarinnar segjum að sjálfsögðu nei við þessu frumvarpi.