131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Neytendastofa og talsmaður neytenda.

592. mál
[11:11]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þetta þingmál er með undarlegri lagasmíðum sem komið hafa fyrir Alþingi. Inn í gömlu Löggildingarstofuna er samkvæmt þessu frumvarpi sett nýtt embætti talsmanns neytenda. Það er illa skilgreint, verksviðið er illa skilgreint og tekjustofnarnir að sama skapi.

Ríkisstjórnin lýsir yfir miklu stolti og talar um stór skref. Hæstv. viðskiptaráðherra segir að við séum að samþykkja merkustu frumvörp þingsins. Hún kveðst vera stolt yfir sínu framlagi. Ég hélt að raforkuskatturinn væri öllu merkari í huga ríkisstjórnarinnar en maður er alltaf að læra eitthvað nýtt.

Við getum ekki stutt þetta frumvarp fremur en hin tvö í spyrðu ríkisstjórnarinnar um uppstokkun á sviði samkeppnismála og eftirlits með samkeppni.