131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:18]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þeirri samgönguáætlun sem hér liggur fyrir til afgreiðslu er áætlaður verulegur niðurskurður frá gildandi áætlun. Heildarniðurskurðurinn á árunum 2005 og 2006 er 5,4 milljarðar kr. að teknu tilliti til vísitölu Vegagerðarinnar. Þessi mikli niðurskurður er umbylting frá digrum kosningavíxlum sem veifað var rétt fyrir kosningarnar 2003 þegar allt átti að gera fyrir alla. Niðurskurðurinn mun bitna illa á ýmsum svæðum landsins en þremur mánuðum fyrir síðustu alþingiskosningar kynntu oddvitar stjórnarflokkanna að ríkisstjórnin hefði samþykkt að verja 6 milljörðum kr. næsta eina og hálfa árið til aukinna samgönguframkvæmda. Voru ýmis verk talin upp í því samhengi. Nú er komið í ljós að margt af því er slegið af. Heildarniðurskurðurinn er fjandsamleg aðgerð fyrir alla byggð í landinu og er höfuðborgarsvæðið þar ekki undanskilið. Hér eru stjórnarflokkarnir að svíkja mörg af sínum stærstu og digrustu kosningaloforðum.

Þetta eru alvarlegar staðreyndir og að mati Samfylkingarinnar á almennt að auka framlög til vegamála og leggja sérstaka áherslu á öflugar tengingar við höfuðborgarsvæðið eins og Sundabraut. Framlög til samgöngumála kalla ekki á veruleg rekstrarframlög í framtíðinni og má fullyrða að í þeim felist sparnaður þegar allt er saman reiknað. Má þar telja fækkun slysa, ódýrari rekstur bifreiða, minni eldsneytisnotkun og styttri vegalengdir með þeim tímasparnaði sem í því felst.

Niðurskurðurinn mun einnig bitna harkalega á öllum landshlutum og allt tal um byggðastefnu hlýtur að vera tómt orðagjálfur þegar skera á svo mikið niður í samgöngumálum sem eru langmikilvægasta einstaka byggðamálið. Mikilvægum framkvæmdum er frestað meðan margar byggðirnar horfa fram á erfiðleika þar sem hvert ár í bættum samgöngum er verulega dýrmætt. Samgöngur eru lykilatriði við viðhald og eflingu byggða og því hlýtur að vera spurt: Er skynsamlegt að skera niður ríkisframlög í þessum málaflokki þegar ástandið er víða sem raun ber vitni? Að sjálfsögðu ekki. Það er fráleitt og það þarfnast skýringa af hálfu hæstvirtra ráðherra ríkisstjórnarinnar þegar kosningavíxlarnir eru fallnir og eftir stendur þessi mikli niðurskurður framlaga til vegamála á næstu árum.