131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:29]

Jónína Bjartmarz (F) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sundabrautin er samgöngumannvirki sem er nauðsynlegt að verði ráðist í hið fyrsta. Hún mun leysa úr mörgum þeim umferðarvandamálum sem við er að eiga í Reykjavík og hún mun líka greiða þeim leið sem eiga erindi til Reykjavíkur og flýta för þeirra. Einnig mun tilkoma Sundabrautar ásamt tvöföldun Reykjanesbrautar og tvöföldun vegarins austur fyrir Hellisheiði stuðla að því að efla nágrannabyggðir höfuðborgarsvæðisins í atvinnulegu, byggðalegu og þjónustulegu tilliti.

Sundabrautin er mjög kostnaðarsöm framkvæmd og mun kosta á annan tug milljarða og því er nauðsynlegt að við fjármögnun hennar sé leitað sérstakra leiða. Svo dýrt umferðarmannvirki verður ekki fjármagnað af samgönguáætlun. Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa lýst því yfir að þeir vilji að gerð Sundabrautar verði fjármögnuð sérstaklega, m.a. með því fjármagni sem ríkissjóður hefur til ráðstöfunar eftir sölu Símans. Í þessu ljósi munum við, þingmenn Framsóknarflokksins á höfuðborgarsvæðinu, styðja samgönguáætlun þótt hlutur höfuðborgarinnar sé rýr.