131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:30]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Því miður er staðreyndin sú að inn í samgönguáætlunina vantar fé. Það var ljóst við afgreiðslu fjárlaga á sl. hausti hvert stefndi í þeim efnum og við því var varað.

Innan núverandi fjárheimilda er ekki hægt að ná sátt um samgönguáætlun. Sá niðurskurður sem við stöndum frammi fyrir gerir það að verkum að við þingmenn Frjálslynda flokksins getum ekki stutt þessa samgönguáætlun. Það er óásættanlegt að við sitjum uppi með það að standa frammi fyrir því að keyra á malarvegum í Norðvesturkjördæmi á næstu árum. Það er óásættanlegt eins og málum er komið miðað við aukna flutninga á þjóðvegunum.

Ég vek líka athygli á að hér er um svikin loforð stjórnarflokkanna að ræða. Því var lofað fyrir kosningar að setja verulega fjármuni í samgöngumálin. Ég tel að sá heildarniðurskurður sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á undanförnum árum sé fjandsamlegur landsbyggðinni, alveg sérstaklega.