131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Samgönguáætlun fyrir árin 2005--2008.

721. mál
[11:46]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil árétta það viðhorf okkar jafnaðarmanna að þessi samgönguáætlun er úr engu gerð. Hún er dæmi um svikin loforð stjórnarflokkanna hvað varðar átak í samgöngumálum. Það hefur einnig vakið sérstaka athygli og er rétt að undirstrika þann vilja okkar þingmanna jafnaðarmanna á höfuðborgarsvæðinu að vilji okkar er skýr í því … (Sjútvrh.: … í þingflokknum, jafnaðarmenn á höfuðborgarsvæðinu.) Ég skil það vel að hæstv. sjávarútvegsráðherra óttist það. Vilji okkar er algerlega … (Gripið fram í.) Herra forseti, ef ég mætti fá andartakshljóð.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann að gefa hæstv. varaforseta tóm til að ljúka máli sínu.)

Það sem ég vildi sagt hafa er þetta: Vilji okkar stóð til þess að styðja þá viðleitni sem fram kom hjá hv. þm. Gunnari Birgissyni hvað varðar aukna áherslu á höfuðborgarsvæðið en án þess með neinum hætti að skerða það skerta framlag sem fyrir liggur í þessari áætlun til landsbyggðarinnar. Kjarni málsins er sá að það vantar fjármuni til vegamála og það skulu vera lokaorð mín við þessa vegáætlun. Við tökum ekki þátt í sviknum loforðum ríkisstjórnarinnar hvað varðar átak til vegamála.