131. löggjafarþing — 132. fundur,  11. maí 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[11:56]

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Við erum að ljúka afgreiðslu á frumvarpi til laga um breytingu á almannatryggingalögunum nr. 117/1993 og eins og kom fram í umræðunni er Samfylkingin þeirrar skoðunar að réttindi til endurgreiðslu á tannlæknakostnaði ætti að vera í lögum en ekki í reglugerð eins og verið er að breyta hér.

Aftur á móti höfum við lagt fram tillögu, gerðum það við 2. umr., þar sem farið var fram á það að réttindin yrðu áfram í lögunum og að sömuleiðis yrði aukinn réttur þroskaheftra til tannlæknaendurgreiðslu sem færi þá upp í 100% í staðinn fyrir 90%. Þá vil ég geta þess að 100% endurgreiðsla er ekki full endurgreiðsla vegna þess ósamræmis sem er milli gjaldskrár tannlækna og gjaldskrár ráðherra í endurgreiðslu á tannlæknakostnaði. Þar sem breytingartillaga okkar var felld í gærkvöldi og hér eru á ferðinni réttarbætur þó svo að þær fari inn í reglugerð munum við engu að síður styðja þessa breytingu á lögunum.