131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Athugasemd.

[12:03]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér þykir óskaplega miður að særindi hæstv. sjávarútvegsráðherra og sálarlíf hans sé með þeim hætti sem hann lýsti hér. Kjarni þessa máls er þó afar einfaldur, hann er þannig að fyrir margt löngu lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra sem beið mjög langan tíma. Hann ákvað síðan að svara fyrirspurninni, ekki á þingi heldur á blaðamannafundi eða fundi úti í bæ. Í sjálfu sér, ef menn koma þannig fram við þingið, hið háa Alþingi, treysta sér ekki til að svara á hinu háa Alþingi en gera það úti í bæ, verða menn vitaskuld bara að búa við það.

Við sem sitjum á hinu háa Alþingi sættum okkur ekki við svona vinnubrögð en þar sem svarið er komið fram, þ.e. fyrirspurninni var svarað, reyndar bara úti í bæ, hef ég alveg sætt mig við það svar og ætla að láta það duga.