131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:10]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Það er að vísu skemmtileg tilviljun að þinghaldi skuli ljúka á lokadaginn, ævafornum lokadegi á vorvertíð til sjávar um aldir, en ég held engu að síður að þingheimi sé nauðsynlegt að fara að huga að því að breyta starfsháttum þingsins frá því sem verið hefur um langa hríð.

Ég leyni því ekki að mér finnst ekki vera í takt við tímann að þingið ljúki störfum fyrri hlutann í maí og komi ekki saman fyrr en 1. október að hausti, að fjórum og hálfum mánuði liðnum. Ég held að menn eigi að fara í þá umræðu hér á þinginu, bæði núna og í sumar, hvernig þeir vilja haga störfum þingsins og gera þær breytingar sem menn koma sér saman um. Ég tel að þingið eigi að starfa a.m.k. út júnímánuð og eigi að koma síðan saman á nýjan leik í septembermánuði. Ég tel að þingið geti starfað í þremur lotum, einni að hausti og tveimur eftir áramót, á milli áramóta og júníloka, með hléum þar á milli sem þingmenn gera til þess að geta sinnt öðrum störfum, eins og heimsóknum í kjördæmi eða störfum innan stjórnmálaflokkanna.

Verkefni þingsins eru ærin og miðað við málastöðu eins og ég fékk hana upp núna bíða 30 frumvörp þingmanna 1. umr. Af þeim eru fimm sem lögð voru fram fyrir síðustu áramót. Af þessum 30 frumvörpum voru 25 lögð fram fyrir meira en tveimur mánuðum. Af þingsályktunartillögum bíða 65 umræðu. Af þeim voru a.m.k. 20 lagðar fram fyrir síðustu áramót, fyrir meira en fjórum mánuðum. 45 þingsályktunartillögur eru orðnar eldri en tveggja mánaða.

Það er alveg augljóst mál að þingmenn sjálfir hafa lagt fram mál sem þeir vilja að verði rædd á þinginu, og þingið gefur sér ekki tíma til að taka þau til umræðu. Mér finnst það ekki eðlilegt vinnulag á vinnustað að mál sem þingmenn vilja bera fram komist ekki til umræðu í þingsalnum mánuðum saman. Við erum að búa til okkar eigið vandamál með því að haga störfum með þessum hætti. Auðvitað kann að vera nauðsynlegt að gera einhverjar breytingar á þingsköpum til að tryggja að mál geti komið til umræðu fyrr en nú er og komist til nefnda og líka að gera breytingar til að tryggja að málin komi úr nefnd til þingsins aftur með einhverri niðurstöðu.

Ég tel þetta ekki ásættanlegt vinnulag, virðulegi forseti. Ég hef horft upp á þetta og tekið þátt í þessu um 14 ára skeið og ég held að það verði ekki unað við þetta öllu lengur. Þess vegna vil ég hreyfa þessu máli nú þannig að menn geti rætt það áður en þeir ganga frá starfsáætlun næsta þings, hvernig menn vilja haga þessu og reyna að gera þær breytingar sem duga mega til að störf þingsins verði skilvirkari en verið hefur.

Það er heldur ekki gott vinnulag að stór og mikilvæg mál séu lögð seint fram, gefinn stuttur tími til umræðna og enn styttri tími til meðferðar í þingnefndum, og að mikilvægir umsagnaraðilar fái kannski allt ofan í einn dag til að semja umsögn sína um málið.

Þrátt fyrir að menn skiptist hér í stjórnarliða og stjórnarandstæðinga held ég að þegar menn horfa á málið með allri sanngirni getum við ekki sagt að þetta sé eðlilegt vinnulag.

Þessu vil ég hreyfa hér, virðulegi forseti, og leitast við að leggja mitt af mörkum til að breyta því vinnulagi sem þingið hefur tamið sér, a.m.k. á undanförnum áratugum. Ég tel mikla þörf á að breyta því.