131. löggjafarþing — 133. fundur,  11. maí 2005.

Frestun á fundum Alþingis.

816. mál
[12:16]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er náttúrlega fráleitt að þingstörf núna, vorið 2005, miðist við sauðburð að vori og göngur og réttir að hausti. Ég ætla einnig að vísa í þá prýðilegu tillögu sem fram kom í þinginu í vetur frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og fleirum um að þingstörf verði nútímavædd með þeim hætti að þingfundir standi almennt til 15. júní og hefjist aftur, að mig minnir, 15. september.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann taki ekki undir þau markmið tillögunnar og hvort þær dagsetningar og þau viðmið hljómi ekki skynsamlega og líti ekki þannig út að hægt sé að færa þinghaldið til nútímans með þeim afleiðingum að hér sé hægt að vinna eins og vitiborið fólk að lagasetningu í landinu.

Allir vita að fjöldi fyrirspurna bíður ósvaraður þó að fresturinn á svörum við þeim sé kominn langt fram yfir það sem þingsköp kveða á um. Þar með eru þingsköp þverbrotin þar sem þeim fæst ekki svarað út af því að svo mikið liggur við að ljúka þinginu 11. maí. Þannig getur þinghlé staðið í 140 daga. Það er fráleit ráðstöfun, fráleitur málatilbúnaður og auðvitað á að breyta þessu. Það hlýtur að verða gert.

Eins þegar litið er til þess fjölda þingmannamála sem ekki fæst annaðhvort afgreiddur út úr nefndum eftir 1. umr. eða nokkurn tíma á dagskrá þingsins til 1. umr. Við ræddum um nokkur slík mál í morgun og allir þekkja þann ágæta málafjölda sem ætti skilið ítarlegri umfjöllun nefnda og að koma aftur inn í þingið til 2. og 3. umr.

Því tek ég undir með hv. þingmanni og spyr hvort þessi markmið þingsályktunartillögu hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og fleiri flutningsmanna sé ekki með þeim hætti að um hana ætti að geta orðið nokkur sátt og fært þinghaldið til nútímastjórnarhátta.